Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

aðgerðir gegn verðbólgu.

[13:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að ég þurfi að breyta aðeins um kúrs frá því sem ég ætlaði vegna þess að þetta eru ekki fullnægjandi svör hjá hæstv. forsætisráðherra. Það er auðvitað bara augljós vöntun á pólitískri stefnu til að takast á við verðbólguna og þó að einhverjir tekjustofnar hafi mögulega rýrnað að raungildi þá breytir það því ekki að ríkisstjórnin ber ábyrgð á að halda verðbólgunni í skefjum. Eins og kemur fram hjá ASÍ og fleirum þá eru hækkanir á ýmsum gjöldum og gjaldskrám meginástæða aukinnar verðbólgu núna.

Það er enginn að tala um að hækkun á áfengi og tóbaki sé eini verðbólguþrýstingurinn, hæstv. forsætisráðherra. En það sem einkennir aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni eru gjaldahækkanir, frestun á mikilvægum fjárfestingum sem allar eru bornar uppi af almenningi á meðan ríkisstjórnin þorir ekki að sýna aðhald með því að breyta auðlindagjaldi eða fjármagnstekjum. Við í Samfylkingunni höfum haldið uppi uppbyggilegri og málefnalegri gagnrýni á ríkisstjórnina og við höfum líka lagt fram okkar tillögur. Hugmyndafræði kjarapakkans okkar var einföld, þ.e. að taka á verðbólgunni þar sem þenslan raunverulega er, eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og methagnað hjá bönkunum, og draga þannig úr hallarekstri ríkissjóðs en hlífa um leið heimilunum með því t.d. að falla frá ýtrustu gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar núna.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort það komi til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að skoða aftur kjarapakka Samfylkingarinnar með opnum hug. Nú er sagt að verðbólgan sé að hluta til hagnaðardrifin. Getur forsætisráðherra tekið undir hugmyndir okkar í Samfylkingunni um að vinna gegn verðbólgunni þar sem þenslan er í raun og veru?