Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

aðgerðir gegn verðbólgu.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrirspurnina og get fullvissað hann um að ég skoða allt frá Samfylkingunni með opnum hug af því hann spyr sérstaklega að því. Þau opinberu gjöld sem hafa verið mest til umræðu hér eru gjöld á áfengi og tóbak, gjöld á bifreiðar og gjöld á eldsneyti. Þetta ræddum við hér við samþykkt fjárlaga og tekjubandorms fyrir jól. Þegar við setjum það í samhengi við stóru myndina þar sem við erum einmitt að horfa á tekjuskattslækkanir sem koma best þeim sem eru tekjulægstir, sem er miklu öflugri jöfnunaraðgerð en að horfa á þessi gjöld, þegar við horfum á þær aðgerðir sem við gripum til til að verja kjör þeirra sem eru með greiðslur frá almannatryggingum, þegar við horfum til þess að við hækkuðum húsnæðisstuðning og jukum barnastuðning, þá erum við í raun og sann að beita ríkissjóði til að verja tekjulægstu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar á sama tíma og við tryggjum það að þessi gjöld, sem voru hvað mest rædd hérna fyrir áramót, rýrni ekki að raungildi. Mér myndi finnast það kúnstugt t.d. ef við færum að tala fyrir minni gjaldtöku af eldsneyti í ljósi loftslagsaðgerða, svo dæmi sé tekið. En hins vegar hafa margir hv. þingmenn gert það. Ég segi: Við getum ekki komist hjá því að setja þetta í stóra samhengið.

Hv. þingmaður talaði hér um ábyrgð á verðbólgunni og ég hlýt að minna á að Seðlabankinn ber auðvitað höfuðábyrgð, það er hans aðalhlutverk í lögum að verðbólgumarkmiði sé haldið. Bankinn hefur auðvitað verið að beita sér, ekki bara með vaxtatækjum heldur líka með þeim nýju stjórntækjum sem hann fékk með þeirri löggjöf sem þessi ríkisstjórn lagði fram og var samþykkt á Alþingi til þess að bankinn gæti beitt sér fyrir aðgerðum á húsnæðismarkaði. Um það var búið að tala lengi en enginn hafði gert neitt í því fyrr en þessi ríkisstjórn lagði fram það frumvarp sem gerði það að verkum að aðgerðir Seðlabankans núna hafa haft áhrif á húsnæðismarkaðinn, sem var það sem við höfðum mestar áhyggjur af. Þar með er ég ekki að gera lítið, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) úr vandanum sem verðbólgan skapar. Hún er stórt vandamál og við eigum að gera það sem við getum — ríkisfjármál, vinnumarkaður og Seðlabanki — til þess að draga úr áhrifum hennar.