Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

sala Íslandsbanka.

[14:09]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í apríl á síðasta ári óskaði fjármálaráðherra eftir því við ríkisendurskoðanda að embættið gerði stjórnsýsluúttekt á því hvort sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka þann 22. mars 2022 hafi samræmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Þetta var gert án samráðs við þingið og algerlega í trássi við kröfu stjórnarandstöðunnar um að setja á fót rannsóknarnefnd. Stjórnarandstaðan sameinaðist um þessa kröfu um rannsóknarnefnd einmitt vegna þess að við töldum ríkisendurskoðanda skorta nauðsynleg verkfæri til að velta við öllum steinum. Í viðtali við RÚV í síðustu viku, forseti, sagði Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi það ekki í verkahring embættis ríkisendurskoðanda að leiða til lykta lögfræðileg úrlausnarefni sem tengjast sölu ríkisins á hluta Íslandsbanka í fyrra. Ríkisendurskoðandi svaraði í skýrslu sinni þannig ekki hvort sala á Íslandsbanka hafi samrýmst lögum. Að hans eigin sögn svaraði hann því ekki.

Spurningin mín til ráðherra er í raun einföld, forseti, og ætti vonandi að kalla á skýr og afdráttarlaus svör. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra telji það ekki eðlilega kröfu að þessari grundvallarspurningu sé svarað, spurningunni sem fjármálaráðherra sjálfur lagði upp með, hvort sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka þann 22. mars 2022 hafi samrýmst lögum. Telur hæstv. forsætisráðherra það eðlilega kröfu að þessari spurningu sé svarað?