154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á fáu hef ég orðið meira hissa en því að hæstv. ráðherra komi á óvart að formaður fastanefndar hafi dagskrárvald og stýri því hvaða mál eru sett á dagskrá. Hafandi verið formaður fastanefndar á liðnu kjörtímabili þá er þetta áhugavert svo vægt sé til orða tekið. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér er sagt: Það á að hagræða, það á að ná fram einfaldara regluverki, það á að ná fram hagræðingu í húsnæðismálum, það á að fækka forstjórum úr átta í þrjá. Það er því margþætt hagræði sem næst fram með þessu og það kemur mér ekki á óvart. Hérna segir engu að síður, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa áhrif á útgjöld eða afkomu ríkissjóðs.“

Af þessu verður ekki annað skilið — og ég geri ekki athugasemdir við að einhver kostnaður falli til við umbreytingu en þegar við horfum til lengri tíma, af því að nú á að einfalda ferla, það er markmiðið — það sem ég skil ekki er hvers vegna enginn fjárhagslegur ávinningur eða hagræðing er áætluð af þessum gjörningi öllum ef við horfum á málin heildstætt sem koma hér fram, hvers vegna það er enginn fjárhagslegur ávinningur af því að sameina átta stofnanir í þrjár, miðað við hagræðingu í húsnæðismálum, færri ríkisforstjóra og allt það sem hæstv. ráðherra taldi upp. Maður skyldi ætla að einföldun ferla og þar fram eftir götunum myndi draga úr þörf á ríkisstarfsmönnum til að afgreiða þau mál sem inn koma. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það fjölgi þá starfsmönnum, að heildarfjöldi starfsmanna hjá þessum stofnunum verði meiri hjá þremur stofnunum heldur en hann er samanlagður hjá átta stofnununum í dag?