135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

transfitusýrur í matvælum.

[10:58]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í atriði er varða hollustuhætti. Þannig er að á vettvangi norrænu landanna er verið að ræða núna um bann og takmarkanir við notkun transfitusýra í matvælum. Árið 2004 bönnuðu Danir það mikla magn sem var af transfitusýrum í mat og nú er það takmark að ekki má vera meira en 2% af slíkum sýrum í mat í Danmörku.

Transfitusýrur eru mjög slæmar fyrir heilsuna og sýnt hefur verið fram á að innbyrði maður meira en 5 grömm á dag af þessum sýrum aukast líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum um 33%. Einnig er búið að færa fram nýjar rannsóknir um að transfitusýrur auki líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini.

Danir voru dregnir fyrir Evrópudómstól af því að talið var að þetta væru viðskiptahindranir en síðan var bakkað með það. Vegna vísindalegra sannana dró Evrópusambandið sig til baka þannig að Danir mega hafa löggjöfina eins og hún er núna.

Við Íslendingar eigum Norðurlandamet í transfitusýrum í mat og það er mikið áhyggjuefni. Teknar hafa verið saman í gögnum á vettvangi Norðurlandaráðs mælingar á skyndibitamat, kexi, kökum og örbylgjupoppi. Við erum með 35 grömm í þessum völdu matvælum og erum í áttunda sæti þegar önnur Norðurlönd eru í sætum 20 til 24. Norðmenn með 16 grömm, Svíar með 14, Finnar með 10 og Danir með 0,4.

Vegna þess hve þetta er stórt heilbrigðismál og tengist hollustu, vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra sem fer með hollustuhætti, hvort til greina komi að fara dönsku leiðina. Ég hefði talið að það væri mjög (Forseti hringir.) mikilvægt. Er verið að skoða það á vettvangi ríkisstjórnarinnar?