138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[15:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan er ósammála ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum um áherslur í skattamálum og við því er ekkert að segja. En það er hægt að gera kröfu til þess að ríkisstjórnin sé látin njóta sannmælis. Látum vera að stjórnarandstöðunni finnist flókið að hafa fleiri en eitt skattþrep, nokkuð sem ég á mjög erfitt með að skilja á tölvuöld. Hér voru lengi tvö skattþrep, annað var hátekjuskattsþrep sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi úr sögunni, út af borðinu, ekki vegna þess að það væri svo flókið að hafa það heldur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað standa vörð um hagsmuni hinna efnameiri í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: … tekjuskattur.) Við höfum viljað snúa þessum áherslum við og út á það ganga skattbreytingar ríkisstjórnarinnar.

Síðan er það hitt, að bera okkur á brýn (Forseti hringir.) að við höfum ekki haft samráð um gerð þessara skattatillagna, það er ósatt. Við lögðum upp með (Forseti hringir.) ýmsar aðrar tillögur en höfum viljað hlusta á aðila víðs vegar í þjóðfélaginu (Forseti hringir.) og taka tillit til þeirra tillagna. Það höfum við gert.