138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, fyrir framsögu hans með áliti meiri hluta fyrir 3. umr. og vil einnig nota þetta tækifæri til að þakka honum mjög gott samstarf í nefndinni. Þó að við séum ósáttir um ýmislegt sem í frumvarpinu liggur hef ég fullan skilning á þeirri stöðu sem hann er settur í sem formaður fjárlaganefndar því að pressan á stjórnarmeirihlutanum er gríðarlega mikil undir þeim skilmálum sem honum er ætlað að vinna. Meðal annars af þeim sökum tel ég nokkuð víst að stjórnarmeirihlutinn í fjárlaganefnd hafi orðið að hafna boði stjórnarandstöðunnar um samstarf til að reyna að lækka útgjöld ríkissjóðs. Þetta er í rauninni einstakt boð stjórnarandstöðu við fjárlagagerð. Við buðum upp á samstarf um lækkun útgjalda allt að 8 milljörðum kr. en því miður sá stjórnarmeirihlutinn sér ekki fært að þiggja það boð en boðar, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan, vinnu í þeim efnum á komandi ári. Ég vona og vænti þess að það muni ganga þá þokkalega vel.

Þær tillögur sem stjórnarmeirihlutinn hefur gert frá upphaflegu fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í október eru þess eðlis að hallinn á ríkissjóði hefur eingöngu aukist í meðförum stjórnarmeirihlutans, sérstaklega fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar á þeim fáu vikum sem liðnar eru frá því að upphaflegt frumvarp kom fram. Það er staða sem ógnar að mínu mati verulega fjárhagslegri afkomu ríkissjóðs og því miður virðast hlutirnir ganga með þeim hætti að ekki sé fullur skilningur hjá ríkisstjórninni á þeirri nauðsynlegu tekjuaukningu sem þarf að eiga sér stað. Hún virðist standa í þeirri trú að þeirri tekjuaukningu sem ríkissjóður þarf á að halda sé endalaust hægt að ná með auknum álögum í stað þess að gera sér ljóst að koma þarf gangverki atvinnulífsins í lag, efla atvinnulífið númer eitt, tvö og þrjú. Svo getum við tekist á um með hvaða hætti það á að vera, hvort heldur það er í garðyrkju eða stóriðju og allt þar á milli. Látum það liggja milli hluta en grundvallaratriðið er að koma gangverki þjóðfélagsins í það horf að það geti farið að stækka kökuna og meira verði til skiptanna en nú er. Það er þetta grundvallarsamhengi hlutanna sem er afskaplega áríðandi að menn geri sér grein fyrir.

Þó svo stjórnarandstaðan hafi boðið upp á þetta samstarf um lækkun útgjalda þýðir það ekki endilega að við höfum samþykkt með einum eða öðrum hætti alla þá þætti sem liggja fyrir í frumvarpinu til lækkunar. Þar er áherslumunur á.

Ég vil sérstaklega geta þess við upphaf ræðu minnar að ef maður ætti að horfa til arfleifðar ríkisstjórnarinnar eftir tæpa fyrsta starfsár hennar þá markast það af þrennu. Það er af þessu alræmda Icesave-máli. Það er jafnframt af því hvernig gengið var fram í vor í svokölluðum bandormi, sem voru lög sem áttu að aðstoða og leiða betur til jafnaðar í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013, en þar var gengið fyrst fram í því að skerða bætur til aldraðra og öryrkja. Það er mjög miður að svo sé því jafnframt er nú við síðustu umræðu um fjárlögin gengið enn lengra í þeim efnum. Þegar þessar stærðir eru bornar saman í þeim málaflokkum er varða lífeyristryggingarnar þá er það alveg með ólíkindum þegar maður leggur þetta niður fyrir sér.

Örorkulífeyrir var á árinu 2009 rúmir 6,9 milljarðar og var síðan í frumvarpinu 5 milljarðar. Hann var lækkaður um 38%. Tekjutrygging ellilífeyrisþega var lækkuð um 20%, úr 18,8 milljörðum í 15,7. Og svo síðasta atriðið sem kemur núna fram í tillögum frá meiri hlutanum fyrir 3. umr. er lækkun á vasapeningum ellilífeyrisþega. Þeir voru 500 millj. kr. í fjárlögum ársins 2009, þeir voru skornir niður í 350 millj. kr. þegar frumvarpið kom fram í október og nú 21. desember er komin fram enn ein skerðingartillagan á þennan lið upp á 35 millj. kr. Vasapeningar ellilífeyrisþega lækkuðu því á milli ára úr fjárlögum ársins, í frumvarpinu, um 40%, þeir eru að fara núna úr 500 millj. kr. niður í 300 millj. kr. Þetta er sennilega alsvívirðilegasta skerðing sem fyrirfinnst í þessu frumvarpi þar sem lengst er gengið. Það er mjög miður að þessir tveir hópar skuli verða fyrst fyrir barðinu á aðgerðaleysi, ef maður getur svo sagt, vonleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Ef maður á að rita eftirmæli eftir ríkisstjórnina á þessu fyrsta fjárlagafrumvarpi hennar, (Utanrrh.: Eftirmæli? Hún er ekki að fara neitt.) hæstv. utanríkisráðherra, (Utanrrh.: Umsögn, ekki eftirmæli.) varðandi málefni þeirra sem standa höllum fæti þá eru þau mjög nöturleg og heggur sá er hlífa skyldi í þann rann. (Utanrrh.: Ertu að tala um utanríkisráðherra?) Ég var að tala um hæstv. ríkisstjórn og það er til háborinnar skammar hvernig þarna er farið með og væri hægur vandi að mæta með öðrum hætti en þeim sparnaði sem af þessu leiðir í öðrum þáttum frumvarpsins. Ég læt mér nægja að nefna ráðstöfunarfé ríkisstjórnar. Ofan á það ráðstöfunarfé sem einstakir ráðherrar hafa er ráðstöfunarfé ríkisstjórnar sennilega einhvers staðar á bilinu 150–180 millj. kr. og hefði verið hægur vandi að ganga nær því.

Ég vil í annan stað nefna eitt dæmi, lítið samfélag 100 einstaklinga, sem leggur miklu meira til ríkissjóðs en það fær og nýtur nokkurn tíma, það er sú litla eyja norður í ballarhafi eins og við segjum stundum, Grímsey. Hún byggir á því að koma afurðum eyjarskeggja sem fyrst á markað. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að skerða ferðatíðni um þjóðveg þeirra í land, Sæfara, en þeir hafa tvær ferðir í viku til að koma afla sínum á markað sem þýðir að það geta liðið allt upp í fimm dagar frá því að fiskur veiðist úr sjó og kominn á land í Grímsey þar til hann er kominn á markað í landi. Í mínum huga er þetta ekki boðlegt. Hægur vandi er að auka verðmætin með því að halda þessari ferðatíðni. Það kostar vissulega 16 millj. kr. en það margborgar sig með verðmæti þess afla sem Grímseyingar draga á land sem skilar sér að sjálfsögðu margfalt í kassann og hægur vandi einnig að ná 16 milljóna sparnaði á öðrum sviðum en þessum. Þegar þessi dæmi eru nefnd í samhengi við það góða boð sem stjórnarandstaðan lagði fram um samstarf um lækkun útgjalda þá snýr það líka að forgangsröðinni og að sjálfsögðu er krafa uppi um að hún sé önnur en hér er lögð fram.

Við í 1. minni hluta fjárlaganefndar lögðum fram framhaldsnefndarálit á þskj. 553. Þau sem standa að því auk mín eru hv. þingmenn Ólöf Nordal og Ásbjörn Óttarsson. Við munum endurflytja flestar þeirra breytingartillagna sem lágu fyrir við 2. umr. og við kölluðum aftur til 3. umr. Þar vegur stærst sú tillaga sem við gerðum til að forða þjóðinni frá hvoru tveggja auknum skattálögum á þessum tíma og ekki síður, ef vilji stæði til og geta hjá hæstv. ríkisstjórn, að standa sómasamlega að því að gerbylta skattkerfinu og gefa sér lengri tíma í það, þá var einboðið að fara þá einföldu leið sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á í þeim efnum. Við gerum ítarlega grein fyrir þeim tillögum okkar í nefndarálitinu við 2. umr. og ég leyfi mér einfaldlega að vitna til þess. Það er á þskj. 394.

Við höfum einnig nefnt og viljum geta þess sérstaklega að ákveðnum vandamálum er slegið á frest sem þýðir í rauninni að það er dulinn halli í fjárlögum ríkisins sem lýtur að því að um er að ræða verulegan fjölda ríkisstofnana sem á við fjárhagsvanda að etja og á því máli er ekki tekið hér. Við vitum að sumar stofnanirnar eru með uppsafnaðan halla. Nægir í því sambandi að nefna stærstu töluna sem er líkast til hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi upp á 2,8 milljarða. Sú stofnun fær að auki hagræðingarkröfu í þessum fjárlögum upp á 3,2 milljarða. Samanlagt erum við að ræða um 6 milljarða kr. fjárhæð sem nemur um það bil 20% af heildarfjárveitingum til þessara stofnana. Það eru engin fyrirmæli um það frá þeim sem stjórna landinu til viðkomandi stjórnanda stofnunarinnar hvernig honum er ætlað að halda sig innan þeirra heimilda sem honum eru settar. Það eru engin skýr fyrirmæli um hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlast til þess að stjórnendur Landspítala – háskólasjúkrahúss skeri niður þá þjónustu sem þeir hingað til hafa veitt. Þannig væri hægt að fara yfir fleiri stofnanir og tiltaka en ég ætla að sleppa því, virðulegur forseti. Engu að síður þýðir þetta verklag að á þessum málum er ekki tekið með skýrum hætti, þeim stofnunum sem hér um ræðir er haldið í fjárhagslegri gíslingu og það sem meira er, að starfsmönnum og forstöðumönnum er ekki áskilið með hvaða hætti ætlast er til að þeir taki á þeim vandamálum sem við er að glíma.

Við höfum enn fremur lagt áherslu á að það sé ekki síður tekið á þeim ríkisstofnunum sem virðast auka starfsemi sína í takt við fjárheimildir jafnt og þétt. Þess vegna höfum við viðrað þá hugmynd að breyta lögum um markaðar tekjur ríkisstofnana í þá veru að þær renni allar í ríkissjóðinn og Alþingi ákveði á fjárlögum hvers árs þann ramma sem þeim sömu stofnunum er ætlað að vinna innan.

Tæpast þarf að hafa mörg orð um tekjuhliðina. Það hefur verið mikil umræða um hana og þau nýju skattalög sem ríkisstjórnin vill fá og gera að veruleika. Það ber öllum saman um það sem þau mál hafa rætt og komið hafa til fundar við efnahags- og skattanefnd sem hefur borið hitann og þungann af því starfi sem liggur í meðferð þessara skattalagafrumvarpa að allir mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við vinnslu þessara tillagna. Samráðið er lítið sem ekki neitt og þessi áform mæta mikilli andstöðu. Engu að síður er alveg ljóst að tekjuhliðin á næsta ári er háð mjög mörgum og miklum óvissuþáttum og í raun mætti fullyrða að hún hafi ekki verið jafnbrothætt í mörg ár. Raunar kom það fram í máli hæstv. fjármálaráðherra við umræður fyrr í dag, skilja mátti orðræðu hans með þeim hætti, að gert væri ráð fyrir að menn yrðu að fara yfir þessi mál öll að nýju á næsta ári og hugsanlega stokka fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar upp að nýju. Það kemur raunar ekki á óvart í ljósi þess hvernig þessum málum hefur undið fram á Alþingi. Nægir í því sambandi að minna á tekjuhliðina og viðbrögð einstakra ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar fjárlagafrumvarpið kom fram. Það var viðurkennt í rauninni strax að tillögur ríkisstjórnarinnar væru ekki fullunnar. Það var boðað við 1. umr. fjárlagafrumvarpsins að þeim tillögum sem þá lágu fyrir yrði breytt og nægir í því sambandi að nefna áform um 16 milljarða auðlindaskatta sem voru reiknaðir inn í frumvarpið í upphafi en eru nú orðnir 5 milljarðar. Þar er um að ræða 11 milljarða mismun og munar um minna.

Þetta tengist að sjálfsögðu þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um skattalagafrumvörpin en það er alveg kristaltært í mínum huga að ríkisstjórnin þarf, verður og hún neyðist til þess að fylgjast afar vel með tekju- og gjaldaþróun ríkissjóðs á næsta ári og Alþingi þarf að gera það sömuleiðis og vera þá tilbúið til að grípa inn í og grípa þá til viðeigandi ráðstafana þegar og ef þessi áform ríkisstjórnarinnar ganga ekki eftir.

Ég vil líka nefna ákveðna þætti sem lúta að vinnubrögðum, upplýsingagjöf og samráði. Þetta eru, eins og ágætir hv. þingmenn þekkja, grundvallaratriði þegar fyrir dyrum stendur að taka þýðingarmiklar ákvarðanir hvort sem um er að ræða einkaaðila eða ríkisaðila og verður að segjast alveg eins og er að það eru mikil vonbrigði að þessi tvö grundvallarhugtök hafi ekki verið virt og ekki eftir þeim unnið. Sá hraði og sú mikla tímapressa sem hefur verið á vinnslu fjárlaganna, sérstaklega á síðari stigum, skapar fyrst og fremst aðstæður fyrir óvönduð vinnubrögð og því fylgir að mistök eru gerð. Ég er fullkomlega sannfærður um að það á eftir að koma tiltölulega fljótt í ljós á nýju fjárlagaári að í fjárlagafrumvarpinu er fullt af mistökum sem fyrir okkur liggur að þurfa að leiðrétta.

Sem dæmi um flumbruganginn í þeim efnum nægir að nefna eitt atriði sem lýtur að sölu bankanna, að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka og Arion banka og núna í síðustu viku Landsbankanum eða NBI hf. Eftir afgreiðslu fjáraukalaganna kom í ljós að vafamál voru uppi með þá afgreiðslu sem átt hafði sér stað. Nú liggur fyrir það álit — ég kem raunar að því síðar — Ríkisendurskoðunar að þetta hafi ekki verið heimilt og því ber að taka af allan vafa. Ég vil sömuleiðis nefna takmarkaðar upplýsingar sem fjárlaganefndin fékk varðandi breytingar á sjóðstreymi samkvæmt 2. gr. fjárlaganna. Og ef maður tekur þó ekki væri nema þessi tvö dæmi er alveg ljóst að þinginu gefst ekki kostur á því að setja sig almennilega inn í málið og gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur sem eru að koma fram núna skömmu fyrir lokaafgreiðslu, breytingartillögur ríkisstjórnarinnar, fela í sér. Það er því á engan hátt unnt með þokkalega bærilegum hætti fyrir Alþingi og fjárlaganefnd að leggja heildarmat á áhrif þeirra tillagna og þess fjárlagafrumvarps sem hér liggur fyrir á íslenskt samfélag. Enn og aftur væri til viðbótar hægt að vitna í gerbyltingu skattkerfisins þegar maður hefur það í huga hvenær þær tillögur komu fram en það var ekki fyrr en 5. desember sem þær litu fyrst dagsins ljós á þingi og tóku í rauninni breytingum allt fram á síðasta dag í meðferð þingsins.

Ég vil einnig nefna áhyggjur varðandi sveitarfélögin og þá stöðu sem þar er uppi. Við erum að fá sífellt fleiri og fleiri fregnir af erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Því vekja þau áform nokkra furðu sem í fjárlögunum eru um fjölgun hjúkrunarrýma þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélög muni taka það verkefni að sér að fjármagna, byggja og reka hjúkrunarrými fyrir ríkið, fá 100% lán frá Íbúðalánasjóði og lögbundin kostnaðarskipting er sú að sveitarfélögunum ber 15% hlutur í stofnkostnaði, ríkinu 85%. Það vill svo til að þó nokkur af þeim sveitarfélögum sem eiga og er ætlað að byggja upp þessi hjúkrunarrými hafa sömuleiðis fengið tilmæli frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga um fjármál sveitarfélaga. Í mínum huga er það ábyrgðarlaust að á sama tíma og ríkið sendir sveitarfélögum þessi skilaboð, og setur þau þar með í áhættuflokk, ætlar ríkið þessum sömu sveitarfélögum að taka það verkefni að sér að byggja fyrir 100% lán hjúkrunarrými og standa síðan skil á rekstri þeirra með væntanlegu framlagi frá Framkvæmdasjóði aldraðra, en eftir því sem ég best veit var hann frekar auralítill síðast þegar ég fékk fréttir af því.

Í andsvörum við annars ágæta ræðu hv. formanns fjárlaganefndar var nefnd þessi fyrirframinnheimta tekna sem byggir á samkomulagi við annars vegar Samtök atvinnulífsins og stórnotendur raforku hins vegar. Ég leyfi mér að kalla þetta bókhaldsbrellu eins og þetta er fært inn í fjárlögin núna einfaldlega vegna þess að þarna er fyrst og fremst um samkomulag aðila að ræða sem gerir ráð fyrir því að á árunum 2013–2018 fái þeir endurgreiðslu þess láns sem þeir veita ríkissjóði með þessu samkomulagi. Þeim er ætlað og þeir undirgangast að lána ríkissjóði 1.200 milljónir á árinu 2010 og sömuleiðis 2011 og 2012 og svo fá þeir endurgreitt næstu fjögur árin þar á eftir. Um þetta eru skiptar skoðanir og þetta hefur, eins og kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar áðan, verið fært undir tekjur í frumvarpinu eins og það liggur fyrir þrátt fyrir að fyrir liggi álit m.a. frá Ríkisendurskoðun um að þetta beri ekki að færa með þessum hætti, taka undir þau sjónarmið sem stjórnarandstaðan setti fram strax þegar við fréttum af þessum áformum og töldum fyrst og fremst að þetta væri í eðli sínu þriggja ára lánveiting og andstætt öllum grunnforsendum reikningsskila að færa hana til tekna.

Þess ber líka að geta í þessu sambandi að með þessari fyrirframinnheimtu hefur rekstrarhalli ríkissjóðs ekki verið bættur þó svo greiðsluafkoman kunni að batna tímabundið.

Ég vil nefna líka undir lok máls míns að ég er þeirrar skoðunar að bankarnir hafi verið seldir án heimildar og styðst það álit mitt við þá vinnu sem lögð var í fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008 og sömuleiðis í fjárlagafrumvarp ársins 2009. Í fjáraukalögum fyrir árið 2008 var fjármálaráðherra veitt heimild til að stofna þrjá banka. Í 6. gr. heimild fjárlagaársins 2009 var fjármálaráðherra heimilt að leggja þessum þremur fjármálafyrirtækjum sem stofnuð voru til fé, samtals 385 milljarða í eigið fé. Meðferðin á þessu í framhaldinu var eftir og við vöktum máls á því við umræður um fjáraukalögin að skammur tími hefði gefist til að fara ofan í þessa hluti og því miður gafst ekki tækifæri til að vanda nægilega mikið til þeirrar vinnu. Það hefði verið hægur vandi að koma þessari heimild fyrir með þeim hætti sem lögskipað er. Nú hefur verið boðað frumvarp til laga um heimildina til að staðfesta þessar breytingar og það er vel í sjálfu sér en hefði farið betur á því að gera þetta jafnhliða fjáraukalögunum þó svo einhver vafamál væru uppi. Við tökum væntanlega umræðu um frumvarpið þegar það kemur fram.

Ég vil að lokum nefna, virðulegi forseti, að stjórnarmeirihlutinn virkar strax á þessu fyrsta ári þreyttur og þrotinn að kröftum. Að mínu mati byggir það fyrst og fremst á heimatilbúnum vanda sem stafar af innbyrðis átökum, illa ígrunduðum vinnubrögðum, hugmyndaskorti og síðast en ekki síst hafa báðir stjórnarflokkarnir þurft að ganga á svig við gefin fyrirheit til kjósenda sinna. Ég kýs að túlka hlutina þannig og framgang mála hér að meiri hlutinn virðist ákveðinn í því að umbylta þjóðfélaginu í hendingskasti á grundvelli lítt ígrundaðra hugmynda. Samráð er ekkert og fram undan er mikill glundroði þegar öryggi og festa ætti að vera grundvallaratriði.

Ég árétta þá skoðun mína að réttast væri að einbeita sér að brýnum verkefnum við endurreisn íslensks samfélags og hætta nú þegar gagnslausum tilraunaverkefnum sem sett eru á flot. Ég árétta sömuleiðis að ríkisstjórnin hefur að mínu mati sýnt virðingarleysi gagnvart fjárlögum og agaleysi við stjórn ríkisfjármála og því miður bera fjárlög ársins 2010 það mark og eru því marki brennd og verða þar til Alþingi fær þau að nýju til meðferðar. Ég vænti þess að hv. fjárlaganefnd muni undir formennsku hv. þm. Guðbjarts Hannessonar taka til við það þegar í upphafi næsta árs, þó eftir þokkalega hvíld, að leggja drög að fjárlögum ársins 2011 því að mér segir svo hugur um að það sé ýmislegt í því frumvarpi sem ætlunin er að afgreiða og samþykkja sem kalli á breytingar eins og raunar kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra fyrr við umræður í dag.