138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að menn leiti leiða til þess að eyða vafa varðandi þá eignasölu sem hér hefur átt sér stað því það er alveg rétt og verður ekki á móti mælt að sú ráðstöfun sem leiðir af þeim samningum sem fjármálaráðuneytið gerði snertir eignarhlut ríkisins í viðkomandi félögum. Þegar menn sýsla með slíka þætti er óumdeilt að einhver verðmæti fara á milli samningsaðila. Fjárlaganefnd var upplýst um þá lögfræðilegu álitsgerð sem hæstv. fjármálaráðherra vitnaði hér til og er það gott eitt. Ríkisendurskoðun vann málið fyrir hönd fjárlaganefndar, komst að þessari niðurstöðu og síðan var efnt til sameiginlegs fundar með fjármálaráðuneytismönnum og Ríkisendurskoðun sem væntanlega skilar sér í frumvarpi því sem ég gerði að umtalsefni áðan.

Ég hef alveg hlíft hæstv. fjármálaráðherra við umræðunni um einkavæðingu bankanna. Ég veit ekki enn þá hverjir keyptu. Það hefði verið mjög gaman að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hverjir eigendurnir væru en tími andsvara gefst ekki til þess. Pólitísk umræða um þetta tekur væntanlega kipp þegar frumvarpið kemur fram og Alþingi verður upplýst um hverjir séu móteigendur ríkissjóðs að þessum ágætu stofnunum, sem vonandi eru komnar á fætur á ný og verða þjóðinni til gagns. Sú umræða bíður en að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra andsvörin.