141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[15:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að fara af stað með að greiða niður flutningskostnað til sumra dreifðustu byggða landsins. Það er mjög gott ef þær byggðir geta búið við samkeppnishæfan flutningskostnað og ég styð það heils hugar. Hins vegar er verið að nálgast þetta mál úr rangri átt. Það sem háir flutningskostnaði á landsbyggðinni er fákeppni í flutningageiranum. Þeir sem hafa viljað standa að strandflutningum í langan tíma hafa bent á að verðlagning stóru fyrirtækjanna, Eimskipa og Samskipa, sem verðleggja fraktina frá útlöndum og á áfangastað innan lands á sama leggnum geri það að verkum að ekki er hægt að koma á samkeppnishæfum strandflutningum á Íslandi.

Niðurstaðan verður því að ríkið niðurgreiðir flutninga fyrir Eimskip og Samskip og að hæstv. innanríkisráðherra ætlar að stofna ríkisskip í staðinn. Við í Hreyfingunni höfum í þrígang lagt fram frumvarp um að þessu verði breytt þannig að mönnum verði gert kleift að hefja strandsiglingar á markaðsforsendum en einhverra hluta vegna í markaðsbúskapslandinu Íslandi nær það ekki fram að ganga.

Ég bið menn að velta þessu fyrir sér. Þetta er einfalt mál.