145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er 17. desember í dag. Unnsteinn Þorsteinsson, vinur minn, er fimmtugur og ég óska honum til hamingju með það. En það þýðir að það er mjög stutt til jóla og hv. stjórnarandstaða getur haldið ýmsu fram en hún getur ekki haldið því fram að hún sé að reyna að liðka fyrir þingstörfum með því að koma með tillögur sem þessar.

Það er umhugsunarefni, burt séð frá efni mála, ef við erum komin á þann stað í íslenskum stjórnmálum að stjórnarandstaðan ætlar með málþófi og tafaleikjum að reyna að koma í veg fyrir að þingbundinn meiri hluti geti klárað mál. Það er miklu stærra mál en sem snýr að þeim einstöku málum sem hérna eru.

Það er þannig í sumum löndum að það er vandi ef viðkomandi ríkisstjórn hefur ekki meiri hluta vegna þess að þar eru minnihlutastjórnir. Hér er ekki um það að ræða og ég hvet hv. þingmenn að hugsa þessa leiki til enda (Forseti hringir.) því að allt sem gert er er fordæmisgefandi.