145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar það hefur gerst að hv. þm. Óttarr Proppé hefur kastað sér til sunds í ónumdum og óþekktum djúpum hefur hann nánast alltaf komið aftur upp úr kafinu með þekkingu og vitneskju sem hefur kastað skýrara ljósi á veruleikann. Nú er kannski komið að því að hv. þingmaður skyggnist ofan í þau sálardjúp sem hann sagðist hafa kinokað sér við að kafa ofan í, þ.e. inn í hugardjúp hv. þingmanna stjórnarliðsins, þó ekki væri nema til þess að búa til verkfæri fyrir okkur sem viljum reyna að finna einhverja fleti á því að hægt sé að ná samtali við þá um þetta mikilvæga mál.

Hér hafa allir utanríkisráðherrar, hver einasti, frá Ólafi Jóhannessyni og fram að þeim sem síðast var, lagt sig í líma við að ná sátt um málaflokk sem er í eðli sínu viðkvæmur. Við vitum það vel af umræðu sem sprettur stundum upp í tengslum við þróunarsamvinnu að þar geta fallið þung og hörð orð. Við þurfum öll að umgangast málaflokkinn af gætni. Þess vegna skiptir svo miklu máli að hægt sé að ná um hann sátt sem sker á pólitíska flokka. Það erum við að reyna hér. Í ljós kemur að ekki er nema örlítill munur á viðhorfum manna gagnvart þessari tillögu. Þá velti ég því að minnsta kosti fyrir mér og hv. þingmaður má síðan ráða því sjálfur hvort hann er mér sammála, hvort þetta sé einhvers konar kergja í hæstv. ráðherra. Er þetta einhvers konar barnalegt stolt hans? Hann getur ekki hugsað sér að þingið komist að niðurstöðu í sáttaskyni sem er öðruvísi en sú sem hann tók við blóðhrárri úr höndum embættismanna sem allir vita að hafa áratugum saman reynt að koma á þessari breytingu til að auka sín eigin völd. Hér liggur fyrir sáttatillaga sem hægt væri að nota til að setja niður (Forseti hringir.) deilur um ÞSSÍ. Ég er eiginlega furðu lostinn yfir því af hverju menn vilja ekki einu sinni skoða hana og hafa lítil rök. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður geti varpað ljósi á það og er eiginlega ekki einu sinni að biðja hann um að reyna það.