145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurning hvað ráðherranum gengur til og hvers vegna hann varð sá sem féll á hakann eftir allar þær atlögur sem gerðar hafa verið að ráðherrum margra stjórnmálaflokka undanfarinn áratug að minnsta kosti og var aðeins rakið í fyrra nefndaráliti minni hlutans.

Ég tek undir það að það er svolítið óþægilegt að vita að það skipti engu máli hvað þinginu finnist, það skipti engu máli hvaða athugasemdir komi fram, það verði samt gert; það er enga breytingu þar að fá, af því að ég ætla að hafa það svoleiðis. Það er Alþingi ekki boðlegt.

Ég hef miklar áhyggjur af ógagnsæi. Ég hef áhyggjur af þeim athugasemdum sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram vegna þessa máls. Svo er það hið diplómatíska ferli sem gæti orðið fyrir starfsfólk utanríkisþjónustunnar, þetta gæti orðið svona kanall í það. Ég hef það miklu frekar á tilfinningunni en að hér sé einhver væntumþykja um málaflokkinn. Mér finnst ekki að það sé sýnt, sérstaklega ekki þegar fram er komin breytingartillaga sem mætir athugasemdum ráðherra klárlega, sem hann setur fram án þess að hafa rökstutt með dæmum, um tvíverknað eða sparnað eða eitthvað annað; án þess að það hafi verið rökstutt.

Þannig að: Já, þetta er áhyggjuefni, virðulegi forseti.