145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get því miður ekki svarað því hvað vakti fyrir hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur eða hvernig túlka beri orð hennar í umræðunni fyrr í dag. Þau eru vissulega umhugsunarverð og bæta óþægilegum þætti í þessa umræðu, að því er mér finnst.

Mér er minnisstætt þegar hæstv. forsætisráðherra talaði, líklega fyrir einhverjum missirum, um sóknarfærin fyrir Ísland sem væru fólgin í bráðnun íss og hlýnun jarðar og átti þá líklega við siglingar um norðurhvel jarðar. Ég ætla rétt að vona að Framsóknarflokkurinn og hæstv. utanríkisráðherra ætli ekki að fara að líta til sóknarfæra fyrir Ísland þegar kemur að þróunarsamvinnumálunum og nota þau sem einhvers konar sóknarfæri hvort sem er fyrir íslenska framleiðslu, íslenskan iðnað eða íslenskt hyggjuvit sem getur vissulega verið gott að kynna erlendis en það verður þó alltaf að gera það vegna þess að beðið var um það að frumkvæði ríkisins sem á að taka við því en ekki þannig að við séum að troða hagsmunum okkar sem ríkrar þjóðar upp á aðra og fátækari þjóð.