145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:50]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er fullt tilefni til að taka þessi mál heildstætt og leggja fram heildstætt frumvarp um afnám tolla. Það er bara aldrei gert. Það er bara þannig. Það er ekkert gert. Þegar upp kemur tiltekinn tollflokkur, tiltekið vandamál sem blasir við, sem hægt er að leysa, þá sé ég enga ástæðu til annars en að bregðast við því og gera það með fyrirvara, með rúmum fyrirvara, sem gefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd ásamt fjármálaráðuneytinu færi á að taka þessi mál til heildarendurskoðunar. Ég veit hins vegar að tollarnir verða kannski ekki í heild sinni endurskoðaðir í einu vetfangi, en þarna eru vöruflokkar sem bera svo sannarlega ofurtolla. Það er hægt að laga það, út á það gengur breytingartillagan.

Menn höfðu tækifæri til að veita umsagnir um málið og nefndinni bárust umsagnir frá hagsmunaaðilum sem starfa á þessum markaði. Þær umsagnir voru svo sannarlega skoðaðar gaumgæfilega og allar þær málsástæður sem þar komu fram. Eftir þá skoðun og eftir skoðun frá mörgum sjónarhornum, þá er það mín skoðun að þær umsagnir gefi ekki tilefni til að ráðast ekki í þessar breytingar núna. En ég vænti þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði málið eftir áramót fram að sumri og taki þá fleiri vöruflokka undir.

Hvað varðar samninginn við Evrópusambandið þá ætti ég nú kannski að koma að því í seinna andsvari hafi ég tækifæri til þess.