146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:45]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér er til umræðu kveður mjög að mikilvægi þess að byggja upp innviði landsins eftir erfiða tíma á árunum eftir hrun. Það er ekki bara í samgöngukerfinu með uppbyggingu vega, hafna og flugvalla heldur snýr það líka að mikilvægi þess að við byggjum upp raforkukerfi okkar, þá sér í lagi flutnings- og dreifikerfið.

Af þeim sökum langar mig að eiga samtal við hæstv. ráðherra um þau atriði í orkumálunum í fimmta kafla. Þar er sérstaklega ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin setur það sem forgangsmál að tryggja raforkuöryggi og styrkja flutnings- og dreifikerfi raforku á Íslandi til að mæta eftirspurn og þróun orkunotkunar næstu ár. Þar er sérstaklega vísað til tveggja svæða sem eru viðkvæm þar sem er mjög nauðsynlegt að hröð uppbygging í þessum efnum eigi sér stað, en þá vísa ég til Vestfjarða og Norðurlands eystra.

Við þekkjum dæmi þess að með samstilltu átaki er hægt að ráðast í mikilvæga innviðauppbyggingu. Við þekkjum það af því verkefni sem við vinnum að núna við ljósleiðaravæðingu landsins, Ísland ljóstengt 2017. Þess vegna langar mig að fá að heyra frá hæstv. ráðherra þau áform og markmið sem ríkisstjórnin hefur til þess að við komumst í að styrkja flutnings- og dreifikerfi landsins, m.a. til að auka byggðafestu í landinu, hraða og treysta möguleika fyrir atvinnuuppbyggingu og bæta aukin lífsgæði íbúa landsins.