146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst áhugavert að ræða líka það sem er ekki í þessari fjármálaáætlun en ætti að vera þar. Í henni birtist auðvitað misskipting og skeytingarleysi gagnvart þeim sem hafa það verst. Á bls. 117, um markmið og mælikvarða og aðgerðir, er m.a. talað um að það eigi að auka aðgang að dómstólum, bæta málsmeðferð og gera hana skilvirkari. En það er hins vegar ekkert talað um hvernig eigi að gera það annað en að mælikvarðar séu fjöldi mála, tegund og málsmeðferðarhraði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort henni finnist ekki löngu tímabært að breyta skilyrðum vegna gjafsókna. Nú þarf einstaklingur að hafa 1.600 þús. kr. eða minna á ári til þess að eiga rétt á gjafsókn og hjón eða sambúðarfólk 2,2 millj. kr. Það er augljóst að fólk með talsvert hærri tekjur hefur bara enga möguleika á að ráða sér lögfræðing. Til dæmis kostar matsgerð í forsjármáli milli 1 og 1,5 millj. kr. á ári, það er fyrir utan lögfræðikostnað. Ég spyr því: Er ráðherra sammála því að það væri mjög þarft verk að hækka hraustlega þessi tekjuviðmið til þess að tryggja jafnt aðgengi allra borgaranna að dómskerfinu og hvort hún komi þeim ábendingum til hæstv. dómsmálaráðherra að leita leiða til þess að gefa öllum borgurum þessa lands möguleika á því að nýta sér dómstólana.