146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:58]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Með samanburðarreglunni geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður eigi við þá reglu sem á að tryggja fólki að lágmarki sömu kjör í gamla kerfinu og því nýja. Ég geri fastlega ráð fyrir að sú regla muni halda með þeim breytingum sem við erum að kynna og að sama skapi er auðvitað gert ráð fyrir skuldbindingum og útgjöldum í fimm ára áætluninni, þar með talið einmitt hluta af lífeyrisreglunni og að hún sé fjármögnuð.

Mér finnst þetta áhugaverð hugmynd með afnám tekjuskerðingar á leigutekjur aldraðra eða einhvers konar frítekjumörk þar eða hvernig sem það mætti útfæra. Það rímar alveg ágætlega við aðrar hugmyndir sem snúa að því að hluti af lausn á húsnæðismarkaði getur verið að örva leigumarkaðinn og sér í lagi að örva fólk sem býr í stóru húsnæði til að leigja frá sér með auðveldari hætti. Það mætti alveg skoða það í samhengi við þau úrræði og mér finnst mjög áhugavert að heyra þessa hugmynd.

Varðandi stuðninginn við almennu íbúðirnar og þann eina og hálfa milljarð sem gert er ráð fyrir að renni á seinni hluta tímabilsins til þessa málaflokks þá er hér auðvitað verið að horfa á rauntölur sem munu taka verðlagsuppfærslum yfir tímabilið eftir því hvernig verðþróun verður. Við erum í þeim veruleika í dag að húsnæðisverð og byggingarkostnaður er að hækka talsvert umfram almennt verðlag. Það má vel vera að við þurfum að horfa til þess á seinni hluta þessa tímabils hvort þetta fjármagn dugi til miðað við þróunina eins og hún hefur orðið. Markmiðið er líka að sporna gegn þessari miklu og hröðu verðhækkun og auðvelda byggingu ódýrari, hagkvæmari eininga en við byggjum kannski í dag. Vonandi dugar þetta fjármagn til.

Varðandi kvótaflóttamennina þá skal ég bara játa það að ég man ekki liðinn, en fjármunirnir eru þarna. Það er gert ráð fyrir því að auka umtalsvert til þessa málaflokks á gildistíma áætlunarinnar.