146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Forseti. Kannski ég steli nokkrum sekúndum til að fylla betur inn í svar mitt varðandi húsnæðismálin áðan. Stærsta áskorunin núna er að byggja þarf áfram upp þetta almenna íbúðakerfi en fyrst og fremst líka að auka framboðið verulega og tryggja að það framboð verði ódýrar, hagkvæmar litlar einingar sem henta vel sérstaklega ungu fólki. Það sem snýr að, ef ég svara því í leiðinni, húsnæðisstuðningnum og vaxtabótunum og mögulegum breytingum þar á viðmiðunarfjárhæðum til að taka tillit til hækkana, ég held að við þurfum að endurskoða þetta stuðningskerfi okkar með þeim huga að það fyrst og fremst liðsinni þeim tekjulægstu og fyrstu kaupendum. Það hefur reyndar mjög lengi verið gagnrýnt, þetta stuðningskerfi okkar, fyrir að ganga allt of hátt upp tekjuskalann og gagnast fáum á endanum að nokkru marki. Við þurfum að horfa til þess.

Varðandi útgjaldaregluna og hvort hún þrengi ekki stakk okkar um of ef um hægist í efnahagslífinu. Ég legg áherslu á að hér er verið að leggja fram ríkisfjármálaáætlun á efnahagsforsendum sem gera ráð fyrir áframhaldandi vexti í hagkerfinu. Hóflegum vexti þegar líður á tímabilið, en vexti þó. Ef mál snerust hér til verulega verri vegar gefur augaleið að slík viðmið, slíka stefnu, yrði að endurskoða til að skapa svigrúm til aðgerða.

Hvað NPA varðar endurtek ég það sem ég hef sagt áður. Þetta er gríðarlega mikilvægt úrræði. Um það verður að nást sátt milli ríkis og sveitarfélaga hvernig það skuli fjármagnað. Ég vona að okkur auðnist að gera það samhliða því sem verið er að lögbinda úrræðið og auka framlög til þess.

Að lokum vil ég þakka fyrir alveg einstaklega áhugaverða (Forseti hringir.) og gagnlega umræðu.