146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þessa spurningu. Varðandi markmið Parísarsamkomulagsins ber stjórnvöldum skylda til að tryggja að Ísland geti staðið við þau. Það er líka persónulegt metnaðarmál fyrir mig og ríkisstjórnina að svo verði. Það getur þýtt íþyngjandi kröfur og aukin gjöld, svo sem í gegnum græna skatta og kolefnisskatt, eins og ég kom áðan inn á, sem hækkar um 100%. Almennt tel ég þó æskilegt að ná markmiðunum með öðrum leiðum líka. Hugmyndir frá atvinnulífinu um leiðir til þess eru vel þegnar inn í aðgerðaáætlunina þar sem markmið okkar og leiðir til að ná þeim verða listaðar, tímasettar og gerðar mælanlegar. Ég hef nú þegar verið að ná í þennan efnivið. Ég hef ekki bara hvatt atvinnulífið heldur líka sveitarfélögin, hin ýmsu félagasamtök, hina ýmsu geira sem um ræðir, sjávarútveginn og landbúnaðinn, til að koma með okkur. Ég hef átt fjölmarga fundi, sent fólk heim með heimaverkefni, ef svo má segja, og sagt: Við viljum ekki gera þetta þannig að þetta verði með boðum og bönnum stjórnvalda sem hafa svo kannski ekki alveg vit á því hvað er framkvæmanlegt út frá því sem er að gerast úti á akrinum. Komið þið með leiðir og informerið okkur og svo sjáum við hvernig við getum unnið þetta saman.

Ég tel einfaldlega að við lendum strax á vegg, stjórnvöld, ef við teljum einu réttu leiðina vera þá að við leggjum línuna án þess að spyrja kóng eða prest. Það mun ekki virka. Þetta þarf að gerast í samvinnu við atvinnulífið og í samvinnu við hina aðilana sem ég nefndi hér áðan og í samvinnu við þingið. Vegna þess, og því hef ég kynnst, að fólk er viljugt og vill gera betur.