146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er gott að eiga orðastað við umhverfis- og auðlindaráðherra um þörf málefni. Umhverfismál eru orðin ágeng í daglegu tali. Það er gott. Jörðin er í lífshættu. Við erum kannski síðasta kynslóðin sem getur skipt sköpum.

Mig langar að ræða um sitt lítið af hverju, kannski að einhverju leyti samhengislaust, en það er best að hefjast handa. Í mínu kjördæmi á Vestfjörðum er unnið að uppbyggingu á ungri og umdeildri atvinnugrein, fiskeldi. Menn vilja vanda sig. Það væri gott að heyra aðeins hug ráðherra um umfang fiskeldisins, tímaáætlanir, svæðaskiptingarnar og samlegðina inn í þjóðarbúið, hvaða möguleika við höfum þar. Og einnig að spyrja ráðherra hvort hún sé sammála sjávarútvegsráðherra í þeim áherslum sem hún hefur kynnt.

Fiskeldið hefur verið mikið til umfjöllunar síðustu dagana og það hefur verið ágætisúttekt. Er umhverfisráðherra sammála t.d. áliti fiskifræðinga sem segja að þeirra mat sé að við hefðum þurft að vinna að heildstæðri úttekt, eins konar rammaáætlun, í fiskeldi?

Við höfum séð eftirlitsaðila í fiskeldi og svo sem í stóriðju líka leika dálítið lausum hala. Umgjörðin þar virðist losaraleg. Að minnsta kosti tvö nýleg dæmi sanna það. Ætlar ráðherra að láta þetta viðgangast áfram? Má sjá þess stað í fjármálaáætlun að blaðinu verði snúið við og (Forseti hringir.) regluverk styrkt og samræmt og meiri kröfur gerðar til faglegrar umgjarðar?