146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Bæði ég og samgönguráðherra erum fulltrúar Suðvesturkjördæmis. Við höfum svo sannarlega fundið fyrir því, eins og fram kemur á bls. 200, að á Keflavíkurvegi er aukningin um 21% á milli ára, sem snýr að umferðinni. Á sama tíma sjáum við að farþegum með strætó hefur fjölgað síðustu árin um um það bil 5% á ári, það er massív fjölgun. Við sjáum líka að ferðamenn fara í auknum mæli um á bílaleigubílum. Þetta gerir okkur mjög erfitt fyrir. Það er sama hvenær maður kemur að hliðartorgi við N1 inn í Hafnarfjörðinn í átt að flugstöðinni, það er alltaf löng bið að komast inn á hringtorgið. Það batnar ekki mikið þegar komið er að FH-svæðinu. Og svo virðist alltaf allt pikkfast þegar komið er inn í Garðabæ. Ef verið er að keyra áfram öll þessi áform — ég nefndi ekki einu sinni allt sem er í gangi en talaði um íbúðabyggðina, Landspítalann, en einnig er mikil uppbygging á svæðinu þarna á milli háskólanna tveggja sem menn huga að. Ég sé því ekki annað fyrir mér, alveg eins og ráðherrann segir, en að það þurfi að forgangsraða. Þótt ráðherrann bendi á samgönguáætlun erum við náttúrlega búin að reyna það frá því að ráðherrann tók við að það er þetta sem skiptir mestu máli, ekki samgönguáætlun sjálf heldur að ráðherrann hafi fjármuni til að fara í þau verkefni sem þarf að fara í.

Auðvitað skiptir máli að Reykjavíkurborg fari að axla sína ábyrgð hvað þetta varðar en líka sveitarfélögin í okkar kjördæmi, þ.e. að tryggja að hægt sé að vinna skipulagið í góðu samráði við stjórnvöld og tryggja að við reynum að taka á þeim vanda sem fer sífellt stækkandi.