146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það eru miklar breytingar sem eiga sér stað í póstþjónustunni, ekki bara hér á Íslandi heldur úti um allan heim. Það hefur dregið verulega úr bréfpósti alls staðar eins og við þekkjum öll. Á móti hefur komið að bögglasendingar hafa aukist mjög. Það er áhugavert skref sem ég held að hafi verið stigið í Danmörku þar sem opinberum aðilum er bannað að senda póst nema rafrænan. Það ættu svo sem að myndast skilyrði fyrir það hér, sérstaklega þegar við erum búin að nettengja landið með þeim hætti sem áform eru uppi um. Mér finnst þetta vera áhugavert. Þetta hefur í för með sér á heildina litið mikinn sparnað.

En þarfirnar breytast líka. Ég var t.d. með fulltrúa Bændasamtakanna á fundi í gær þar sem þeir bentu á að nú væru meiri verðmæti, varahlutir og annað með póstverslun að koma heim á bæi og þetta er skilið eftir niður við vegi. Það þarf að taka tillit til þessa líka þegar við hugum að því hvernig þessu verður hagað í framtíðinni.

Það mun væntanlega koma út reglugerð í sumar eða fyrir sumarið þar sem við munum fækka eitthvað póstdreifingardögum til að mæta þessum samdrætti. Síðan er unnið að frumvarpi þar sem unnið er að afnámi einkaréttar í póstþjónustu. Ég geri ráð fyrir að slíkt frumvarp líti dagsins ljós í þinginu, ef ekki næsta haust þá alveg örugglega næsta vetur. Markmiðið verði að við klárum þetta, eiginlega til samræmis við nánast öll Evrópulönd. Það er kannski Sviss sem ekki er búið að afnema einkaleyfið í þessu en öll önnur lönd hafa gert það. Við höfum fylgst með þeirri þróun og undirbúningur að því er í fullum gangi hjá okkur.