146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:20]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svarið en myndi kannski vilja fá ögn betri skýringu á því hvort hann telji að þetta muni hugsanlega kosta ríkissjóð eitthvað til að byrja með eða hvort engin veruleg áhrif verði fyrir ríkið alveg frá fyrsta degi.

Síðan langar mig að spyrja að öðru. Það lýtur að samgöngum á höfuðborgarsvæðinu en frá dálítið öðru sjónarhorni en hefur verið nefnt hingað til. Þegar ég lít yfir markmiðin, mælikvarðana og aðgerðir í samgöngumálum eru þau mörg frekar bílamiðuð. Það er helst markmið nr. 4 um umhverfislega sjálfbærar samgöngur sem sker sig úr þar sem eru markmið um að hlutfall almenningssamgangna í fjölda ferða innan SSH fari vaxandi. En við lítum hér fram hjá einum stórum og mjög grænum samgönguþætti sem eru hjólreiðar. Það eru engin sérstök markmið sem ég sé í áætlun hvað þær varðar. Þó gladdi mig að lesa í textanum sem fer á undan, með leyfi forseta, þar er sagt:

„Árið 2016 ferðuðust um 13 milljónir farþega með Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Farþegum hefur fjölgað síðustu árin um það bil um 5% á ári. Stjórnvöld stuðla að eflingu almenningssamgangna og uppbyggingu göngu- og hjólastíga með samningi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“

Mig langaði að fá betur á hreint hvernig þessi staða hefur verið hingað til með uppbyggingu hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu og hvernig ráðherrann sjái fyrir sér þróun í þessum efnum. Eru áform um að það haldi áfram, aukist með einhverjum hætti og að við getum jafnvel litið svo á að stjórnvöld komi að einhverju leyti að uppbyggingu hjólasamgangna út úr höfuðborgarsvæðinu? Það er t.d. ákveðið vandamál að þegar menn lenda í Leifsstöð geta þeir ekkert hjólað með góðum hætti til Reykjavíkur. Þeir þurfa annaðhvort að hjóla á vegi eða eftir mjög vondum vegum.