146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:29]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra, en ég veit ekki hvort hann sé sammála mér. Ég er alla vega sammála sjálfri mér um að fara frekar í slíkar framkvæmdir þar sem er minni þensla, á meðan svo er, en fara í framkvæmdir á seinni hluta kjörtímabilsins ef þenslan minnkar á höfuðborgarsvæðinu og þá væri borgarlínan mjög heppileg inn í þær áætlanir.

Mig langar að spyrja um hjólastígana sem var verið að fjalla um áðan. Flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru að þétta byggð og til að styðja við þéttingu byggðar þurfum við að bjóða upp á vistvænar samgöngur og þá eru einmitt verkefni eins og borgarlínan og hjólreiðar mjög mikilvægir þættir, sérstaklega út frá loftslagsmálum og öðru. Sveitarfélögin sum hver hafa lýst yfir áhuga á því að flokka stíga og búa til sérstaka samgöngustíga og síðan aðra tómstundastíga. Það er þannig að það eru í raun engar reglur í umferðarlögum á Íslandi um hjólreiðar á stígum nema þegar kemur að vistvænum götum, þá gildir 15 km hámarkshraði í götum og á það sama við göngustíga. Hins vegar erum við að mæla hjólreiðafólk á allt upp í 58 km hraða þar sem er 30 km hámarkshraði í götum, hjólreiðakapparnir eru á allt upp í 58 km hraða á göngustígum. Það getur skapast mikil hætta og við höfum áhyggjur af því.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi áhuga á því að fara í einhvers konar vinnu við það að gera plan með höfuðborgarsvæðinu í vistvænum samgöngum hvað varðar sérstaklega hjólreiðar og uppbyggingu hjólreiðakerfis fyrir allt höfuðborgarsvæðið í heild sinni út frá flokkun um samgönguhjólreiðar og annars konar hjólreiðar þar sem gildir lægri hámarkshraði.