146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni þegar umbætur í málaflokknum eru á döfinni og heillandi að heyra tröllatrú hæstv. ráðherra á þeim verkefnum sem ryðjast á í. Enginn efast um góðan vilja ráðherra til að hrinda þessum verkefnum í framkvæmd. Hann er bæði laginn og lipur við að leysa ýmis mál. Ég spyr ráðherra hvort hann vænti þess að meira fé verði varið til samgöngumála en þegar hefur verið kynnt í þessari áætlun, ef til vill í ljósi rýmri fjárhags og fréttir gærdagsins vekja manni bjartsýni. Þetta er í rauninni líka gefið til kynna í fjármálaáætluninni að meira fé komi inn í samgöngumálin. Hann vill kannski varpa örlitlu ljósi á þetta. Ef það myndi nú verða að við fengjum meira fé í samgöngumálin, sem full þörf er á eins og hann þekkir gerst manna, mun þá þingið að einhverju leyti fjalla um þau verkefni sem færu í forgang að hans mati?

Það er auðvitað hrópað um allt land eftir umbótum í samgöngumannvirkjum. Það á við um Austurland, Norðurland, Suðvesturland og Suðurlandið, þar er þyngsta umferðin. Ég nefni líka mitt gamla góða kjördæmi, Vestfirði og Vesturland, Norðvesturland. Það eru vegleysur um Vestfirði. Við þekkjum Vatnsnesið í Húnavatnssýslu og Skógarströndina og núna dynja á okkur undirskriftalistar um Hegranesveg í Skagafirði sem er illfær í blómlegri sveit, fimm kílómetra kafli, svo það eru víða verkefnin.

Fróðlegt væri að heyra í ráðherra hvort hann sé bjartsýnn á að við fáum meira fé í vegamálin í þessari áætlun.