146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar sem snertu líka beint tillögur mínar á sínum tíma, fjármálatillögur okkar. Eftir að þær komu fram hefur verið birt skýrsla um MAST, Matvælastofnun, sem sýnir skýrlega að stjórnvöld, bæði núverandi en líka fyrri ára, verða að taka betur utan um þessa stofnun. Það skiptir ekki máli í hvaða flokki menn hafa verið í, hvort það eru vinstri eða hægri menn, það þarf að taka betur utan um Matvælastofnun og styrkja eftirlitið. Skýrslan er mikilvæg fyrir okkur til að byggja upp öflugt matvælaeftirlit fyrir neytendur, fyrir framleiðendur og fyrir innflytjendur. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að við þurfum að gæta vel að þessari stofnun.

Mín forgangsröðun varðandi tillögu í tengslum við fjárlagagerð og fjármálaáætlun var alveg skýr. Það var forgangsraðað í þágu Hafró og Matvælastofnunar, m.a. út af hugsanlegri aukningu í fiskeldi, eftirliti því tengdu, en líka auknu matvælaöryggi og eftirliti. Það var alveg skýrt af minni hálfu að Hafró og Matvælastofnun yrðu í forgangi. Ég vil líka draga fram, þó það séu ekki háar fjárhæðir, að ég vil reyna að fylgja því eftir sem kom fram í samskiptum útgerðarmanna og sjómanna í hinu erfiða tíu vikna verkfalli sem varð. Það þarf að byggja upp traust milli aðila. Og hvað geta stjórnvöld gert þar? Þau geta meðal annars farið í að efla Verðlagsstofu skiptaverðs sem er fyrir norðan. Það koma ítrekaðir póstar til mín frá forystu verkalýðshreyfingarinnar hvað þetta varðar. Þetta er hluti af því sem ég held að við verðum að reyna að nota svigrúmið í.

En spurningarnar voru margar. Ég reyni að koma að þeim í seinna svari mínu. Já, það þarf að gæta að MAST. Varðandi þang og þara og auðlindagjöld tel ég mikilvægt að taka hófleg auðlindagjöld á því sviði en ég hef algjörlega opnað á að það renni að hluta til hlutaðeigandi sveitarfélaga.