146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Allt eru þetta falleg orð og eins greinarnar sem fjallað er um, markmiðin í 12. og 13. kafla, annars vegar um landbúnað og hins vegar um sjávarútveg og fiskeldi. Við erum að ræða fjármálaáætlun. Það er rétt, sem ráðherra segir, að verið sé að forgangsraða til að skila sem mestum afgangi. Í þeim tilgangi er öllu öðru haldið niðri. Þess vegna er það spurning mín og okkar þingmanna í þessari umræðu við einstaka fagráðherra: Hvernig ætla menn að koma þessum fallegu orðum og markmiðum í framkvæmd? Í sjávarútvegi erum við með Hafrannsóknastofnun — sem getur vel notað umtalsvert meira fé, ég veit að við hæstv. ráðherra erum sammála um það — og Fiskistofu og í landbúnaðinum með Matvælastofnun. Það eru rannsóknir undir Matís sem eru samningar sem ekki munu fá mikla peninga til nýsköpunar. Hvernig á þetta að vera hægt þegar ráðherra þarf að halda sig við 2% aðhaldskröfu ofan í það að lítil aukning er á milli ára, 65 milljónir í sjávarútveginum fyrir utan fyrsta árið, 2018 og 2019, en aðhaldskrafan er upp á 125 eða 130 milljónir á hverju ári? Það þýðir með öðrum orðum að ekki verður mikil aukning til að ramma inn og forgangsraða nema hætta einhverjum verkefnum, það er rétt.

En hvaða verkefni eru það sem hafa verið svona yfirfjármögnuð upp á síðkastið, einhver gæluverkefni sem ekkert mál er að hætta við? Eru það verkefni hjá Hafrannsóknastofnun? Eða eru það verkefni hjá Matvælastofnun? Ekki samkvæmt skýrslunni og ekki samkvæmt því sem við höfum heyrt frá Hafrannsóknastofnun á liðnum árum. Hér er ég ekki að tala um heilt skip upp á nokkra milljarða. Hér er ég bara að tala um auknar rannsóknir og nýsköpun og það að eiga möguleika á því að setja peninga inn í þessi fallegu orð og þessar fallegu hugmyndir sem hér eru settar fram. Hvernig á að gera þetta? Við höfum ekki fengið mjög skýr svör frá flestum ráðherrum hér í dag.