146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil undirstrika að ég er enginn sérstakur talsmaður sértækra aðgerða, en ég hef áhyggjur vegna þessara aðstæðna með gengið. Það á enn eftir að stíga, kannski um meira en 10% fram til 2019. Það er í því ljósi sem ég nefni þetta. Hvað metur ráðherra að útgerðin þoli lengi út svona? Eða eru þetta óþarfaáhyggjur af útgerðinni?

Fiskeldismálin. Ætlar ríkisstjórnin að láta reka á reiðanum og taka ekki afstöðu til hversu mikilla afgjalda við eigum að ná? Ætlar hún að styrkja reglugerðarammann? Það er hrópað innan úr geiranum sjálfum um að það sé allt of mikill losaragangur í þessu. Geirinn sjálfur hefur mikinn metnað. En þeir kvarta um það að þeir fái ekki nógu mikið aðhald og reglurnar séu ekki nógu skýrar. Hvað telur hæstv. ráðherra eðlilegt að greinin greiði í afgjöld? Ég nefndi það í fyrri ræðu minni í kvöld að fiskifræðingar hefðu rætt um að greinin þyrfti á því að halda, jafnvel áður en lengra væri haldið og virðulegur ráðherra hefur svo sem talað þannig líka að við eigum að fara okkur hægt, að fá rammaáætlun í greinina. Örstutt um þetta.