146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir eldræðuna. Enn verð ég að vera ósammála hv. þingmanni í grunninn því að ég tel að það sé, svo að ég endurtaki mig, einhver helsta ábyrgð okkar sem erum kjörin til trúnaðarstarfa á Alþingi og sem höfum meirihlutastuðning á Alþingi til þess að sitja í ríkisstjórn, hversu tæpur sem sá meiri hluti kann að vera eða ekki, að sýna ábyrgð, að taka persónu okkar út fyrir sviga, að láta ekki glepjast af óskum um vinsældir heldur að standa okkur vel fyrir umbjóðendur okkar sem eru íslenska þjóðin, sem eru almenningur, og burt séð frá því hvort það kunni að vekja hjá okkur vinsældir eða þýða atkvæði í framtíðinni. Ég hef í öllum störfum mínum lagt einlægan vilja minn í og lagt áherslu á það að gera mitt besta til að koma í veg fyrir að minni hagsmunir, takmarkaðir hagsmunir, eða minn persónulegi smekkur ráði för og mun halda því áfram.

Ég ítreka það sem ég sagði í fyrra svari mínu að ég tel að þessi fjármálaáætlun sé góð, hún sýni ábyrgð. Hún er í takt við stöðuna eins og hún er metin. Það er ekki ríkisstjórnin sem semur þjóðhagsspá, það er þvert á móti gert út frá stöðunni og þeim mælingum sem til eru. Fjármálaráð hefur einmitt sagt að vandi fjármálastefnu (Forseti hringir.) sé að ekki sé sýnt nógu mikið aðhald. Ég tel að hluti af því að þetta er hófleg áætlun, (Forseti hringir.) sé að hér er bæði sýnt aðhald en þó sömuleiðis aukin útgjöld, sérstaklega til velferðarmála sem mikilvægt er að verði aukin.