149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og ætla að fá að vera í andsvari á svipuðum stað og hv. þingmaður á undan mér.

Það hefur verið ríkjandi viðhorf að frjáls verslun leiði til jafnra tækifæra fyrir alla. Það er markmiðið. Síðan tala aðrar tölur um ójöfnuð, ekki síst á milli landa heims, sínu máli. Mig langar að nálgast þetta út frá því. Menn eru ekki alla jafna sammála um þetta. Sumir nálgast velmegun sem forsendu mannréttinda, aðrir nálgast mannréttindi sem forsendu velmegunar. Mig langar að taka þann vinkilinn, sem ég tel að sé réttur, og skoða þetta út frá því og þessum yfirlýsta tilgangi fríverslunarsamninga.

Ég veit að hæstv. ráðherra talar fyrir stefnu þjóðarinnar að auka fríverslunarsamninga á heimsvísu. Hann sagði áðan að hann liti almennt svo á að það væri á sviði annarra en endilega EFTA að tryggja mannréttindin og tilteknar stofnanir hefðu það á sínum herðum. En í ljósi þess að við erum að efla fríverslun í heiminum og markmiðið er m.a. að láta sem flesta njóta þess þá langar mig að spyrja hvort hann geti verið sammála mér í því að það gæti verið leið til þess að ná árangri á þessu sviði fyrr en ella að alþjóðlegar stofnanir tengdust saman og samtök á borð við EFTA tækju þátt í því. Ég átta mig á því að Ísland eitt og sér myndi líklegast ekki skrifa undir marga samninga við lönd á borð við Tyrkland ef það væri ófrávíkjanleg krafa þessa lands. En innan EFTA og síðan EFTA innan annarra samtaka gæti það vissulega haft áhrif. Mig langar til að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því hvort það væri eitthvað sem við ættum virkilega að tala fyrir. Dropinn holar steininn.

Við erum með ákveðið markmið sem er að dreifa hagsæld, almennri velmegun um heiminn. Mannréttindi koma ekki eftir að því verkefni er lokið. Þau eru forsenda þess að við náum að ljúka því verkefni. Við berum því ákveðna ábyrgð á þessum málum.