149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[12:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Af því að hv. þingmaður spyr hvort við getum átt eitthvert samtal og samvinnu í þessu vil ég bara segja: Það á við í þessu sem öðru að ég fagna samstarfi, í þessu tilfelli við þingmannanefnd EFTA, sem ég hef reynt að eiga eins gott samstarf við og mér er unnt. Það er mjög mikilvægt. Ég var sjálfur formaður þingmannanefndar EFTA og hún skiptir máli. Ég veit að við hv. þingmaður, sem er formaður þingmannanefndar EFTA núna, erum sammála um það.

Ég held að við ættum að byrja á því að fræða fólk á þessum vettvangi um þessa hluti. Ég held að það væri mjög góð byrjun. En að sjálfsögðu er ég tilbúinn að ræða þessi mál. Ég er ekki viss um að við getum gert skil á milli þjóðaröryggis og viðskipta. Ég held að samskipti og viðskipti renni allt mjög mikið saman. Það er mjög mikilvægt að upplýsa kjörna fulltrúa og embættismenn um þessa þætti og þróunin er miklu hraðari en menn ætla. Auðvitað hefur umhverfið sem við vinnum í að stórum hluta tekið mið af allt öðru en núverandi aðstæðum. Ekki svo að skilja að ég haldi því fram að við séum einhvers staðar langt aftur í fornöld hvað þetta varðar. Ég er ekki að segja það. Ég er bara að segja að þróunin er mjög hröð. Það er í mörg horn að líta í þessum efnum. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn að ræða þetta við hv. þingmenn og þingmannanefnd EFTA og þá aðra þingmenn sem vilja ræða þetta. Því meiri upplýsing sem er um þessi mál meðal kjörinna fulltrúa og embættismanna, því betra.