149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

411. mál
[12:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps. Ég fagna því alltaf mjög þegar við fáum tækifæri til að ræða hér um mikilvægi vísinda-, rannsókna- og nýsköpunarmála. Ég vil meina að það sé eitt af okkar allra mikilvægustu málum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að verið sé að hrinda í framkvæmd aðgerð 1.9 í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Ég verð að viðurkenna, eftir að hafa rennt yfir þetta, að ég átta mig ekki alveg á því hvort eitthvað fleira þurfi til eða hvort þetta sé fullnægjandi. Ég geri ráð fyrir því að það komi ágætlega fram í umfjöllun nefndarinnar um málið en ég fagna því, sem hér hefur komið fram, að frumvarpið er unnið í góðu samráði við Rannsóknaráð og Vísinda- og tækniráð, ég geri ráð fyrir að þá hafi þau sjónarmið öll komið fram.

Mig langaði sérstaklega til að taka hér til máls eftir að hæstv. ráðherra fór að tala um árangur vísindamanna okkar, til að mynda í rannsóknaáætlunum Evrópusambandsins. Þar höfum við náð gríðarlega miklum árangri og ég held að við megum vera mjög stolt af því. Ég hafði tækifæri til að heimsækja Evrópusambandið í síðustu viku og ræða við sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum þar, m.a. sérfræðinga á rannsókna- og nýsköpunarskrifstofunni þar sem sérstaklega var talað um þann mikla árangur okkar Íslendinga að sækja í rammaáætlanir Evrópusambandsins. Ég held að við þurfum bara að hvetja okkar fólk enn frekar áfram í þessum málum.

Mig langar líka til að nota tækifærið hér og leggja áherslu á það hvað við getum lagt fram í mótun svona rammaáætlunar eins og hjá Evrópusambandinu. Þótt við séum ekki aðili að Evrópusambandinu höfum við aðgengi að allflestum vinnuhópum sem koma að mótun þessara aðila og ég ræddi líka við starfsfólk okkar í sendiráðinu sem útskýrði fyrir mér hið viðamikla starf þess og til að mynda við fulltrúa menntamálaráðuneytisins þar. Þegar kemur að því að móta rammann utan um það hvers konar verkefni hægt er að sækja um eigum við auðvitað að horfa mjög til okkar hagsmuna.

Mig langar að nefna hér sérstaklega norðurslóðamál. Hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér, Þórunn Egilsdóttir, kom líka aðeins inn á súrnun sjávar, heilbrigði hafsins, þetta sem við köllum bláa hagkerfið, umhverfismál í stóra samhenginu en tækifærin okkar þar eru mikil. Ég fagna öllum skrefum okkar í þá átt að ýta enn frekar undir vísindi og rannsóknir, sérstaklega á þessum sviðum. Ég hef reyndar gengið svo langt að segja að við eigum ótrúlega mikil tækifæri, þegar kemur að norðurslóðamálum, til þess að verða eins konar Mekka rannsókna og þekkingar á því sviði. Ég tek því undir það sem hér hefur komið fram, ég fagna því að frumvarpið hafi verið lagt fram og hvet hæstv. ráðherra áfram í þeim efnum.

Fyrir jól samþykktum við breytingar sem snúa að nýsköpun fyrirtækja. Við vorum að auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum fjármögnun og auka skattaniðurgreiðslur. Þetta fer allt saman og það er líka mikilvægt að þegar við horfum á rannsóknasamfélagið okkar, og þá grunnrannsóknir, á stuðningsumhverfi fyrir alla keðjuna að vera gott. Þá á ég við að grunnrannsóknir séu hagnýttar og áfram sé stuðningur við fyrirtæki til að hagnýta sér slíkar niðurstöður í nýsköpun. Þarna kemur að því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og hæstv. ráðherra nýsköpunarmála þurfa að vinna vel saman og gera það til að mynda í gegnum Rannís og Tækniþróunarsjóð þar. Tækifæri okkar eru víða í þessum efnum og við getum svo sannarlega verið stolt af okkar vísindamönnum og þeim sem hafa verið að sækja í samkeppnissjóði. Eins og markmið þessa frumvarps er, að ýta enn frekar undir það, þá styð ég það auðvitað heils hugar.

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég myndi líka vilja sjá, og þá er það kannski ekki alveg á borði hæstv. ráðherra nema óbeint, enn frekara alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna- og vísindamála. Ég nefndi það í heimsóknum mínum úti í Brussel. Þegar kemur að norðurslóðamálum vantar til að mynda mjög samstarf við rússneska vísindamenn. Það hefur eflaust meira að gera með pólitík en vilja vísindamanna til að vinna saman. Það er spurning hvaða möguleika við eigum á samstarfi yfir til Norður-Ameríku. Evrópusambandið hefur verið að gera mjög góða hluti og er að opna rannsóknaáætlanir sínar þannig að það er að hvetja til þátttöku frá öðrum ríkjum þar, þ.e. ef ríkin eru þá tilbúin að borga á móti.

Eins og ég segi eru tækifærin víða og ég held að með okkar stöðu sem aðili að þessum rannsóknaáætlunum Evrópusambandsins, sitjandi í norðurslóðaráðinu, séu jafnvel miklir tengimöguleikar við aðrar þjóðir til að ýta enn frekar undir rannsókna- og vísindasamstarf á þessum vettvangi.