149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:16]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mögulega á mörkunum með að vera með andsvar en ég stenst ekki freistinguna vegna þess að þingmaðurinn nefndi svo gott dæmi um það hvernig hægt er að vefa lýðræðisfræðslu inn í skólastarf. Dóttir mín var einu sinni á leikskóla þar sem deildirnar skiptust á að ráða einum matseðli í mánuði og hver deild greiddi atkvæði um það hvað yrði í boði þann daginn. Þetta er svo dásamlegt dæmi um það hvernig hugkvæmni kennara getur nýst á einfaldan og ódýran hátt til að kenna börnum lýðræði. Þarna fá þau ekki bara að standa frammi fyrir ákvörðun heldur fá þau að sjá hana verða að veruleika í sama mánuði. Þetta er alveg dásamlegt dæmi og sýnir hvað við eigum mikla bandamenn og mikla auðlind í kennarastéttinni þegar kemur að því að efla fræðsluþáttinn, sem ég er svo hjartanlega sammála þingmanninum um að þarf að vera sett fullt trukk í ef við samþykkjum þetta mál.