150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

viðgerðir á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða.

126. mál
[16:51]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa kynningu. Ég minni á að utanvegaakstur var gríðarlegt vandamál árum og áratugum saman en mikið hefur unnist á því öllu saman. Ástandið er miklu betra nú en var, en það er vissulega enn til vansa þeim sem eru í utanvegaakstri. Eitt og annað bíður úrlausnar. Þegar ég sé þessa þingsályktunartillögu og sérstaklega greinargerðina finnst mér töluvert vanta upp á það að manni finnist málið nokkuð skýrt. Hvert er umfang utanvegaaksturs í raun og veru? Ég hefði gjarnan viljað sjá einhverjar upplýsingar um það í greinargerðinni og eins hvert tjónið er. Það er mjög erfitt að meta til fjár tjón af utanvegaakstri vegna þess að þetta getur verið í fjörusandi annars vegar, ársandi einhvers staðar uppi á hálendinu, grónum svæðum eða jarðhitasvæðum. Við þekkjum dæmi um allt þetta. Hvergi er gerð tilraun til að setja eitthvað fram um hvort þróunin sé í þá átt að þetta tjón vaxi hvað fjármuni snertir eða minnkar.

Svo er annað sem kemur auðvitað inn í þetta allt saman og það er það sem við getum kallað náttúrulega lagfæringu á utanvegaakstri. Í sumum tilvikum er náttúran mjög fljót að afmá þessi ummerki þar sem er t.d. foksandur. Utanvegaakstur er í sumum tilvikum þannig að eiginlega er ekki hægt að bæta fyrir hann eða ekki rétt að bæta fyrir hann með einhverjum sérstökum viðgerðum vegna þess að ummerkin eru horfin árið eftir.

Ég hefði viljað sjá vandaðri undirbúning og spyr hv. flutningsmann af hverju það hafi ekki verið gert.