150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom inn á vefinn tekjusagan.is og ýmsa aðra áhugaverða tölfræði sem við erum með um laun á Íslandi, launaupplýsingar. Almennt séð er það ekki nægilega nákvæmt tæki. Þar vantar ýmis gögn og ekki er tekið tillit til ýmissa hluta eins og maður heyrir að fólk sé jafnvel að leigja á 90.000 kr., gefið upp samkvæmt leigusamningi, en er í rauninni að leigja kannski á 50.000 kr. meira. Þar hverfa ráðstöfunartekjur en það endurspeglast ekki í uppsöfnuðum gagnagrunni sem slíkum. Við erum í rauninni með mjög óheilbrigt launaumhverfi á Íslandi og ég held að þetta gæti einmitt hjálpað til þar sem þetta er ákveðið skref. Hvort sem við erum að fara í áttina að því að hafa laun sem ákveðnar trúnaðarupplýsingar eða ekki þá hef ég alla vega þá skoðun að þar sem ekki er launaleynd sem slík geti hver sem er sagt frá því hvað viðkomandi er með í laun. Á þessum tveimur vikum sem hægt er að skoða svona upplýsingar er alltaf einhver svindlvörn gagnvart því að þetta séu einhvers konar trúnaðarupplýsingar eða ekki. Ég styð það að taka þetta skref, í alvöru, svipað og gert er í Noregi og hefur gefið góða raun. Í stærra samhengi má spyrja um áhrif þess að taka þetta skref á launaumhverfið sem við erum í almennt. Hvað sér þingmaðurinn fyrir sér með t.d. auglýsingar á störfum, að launaupplýsingar fylgi jafnvel þegar það er auglýst eftir starfsfólki þannig að það sé aðeins meira gagnsæi? Maður getur hvort eð er flett upp á því hvað fólk er með í laun hjá því fyrirtæki.