150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sem þingmaðurinn kallaði óheilbrigt launaumhverfi endurspeglist m.a. í launaleynd. Hluti af því að auka jöfnuð í samfélaginu og tryggja fólki mannsæmandi laun er að fólk tali um launin sín, að það sé samfélagsleg umræða um það hvernig launaskipting er í samfélaginu. Ég held að því lengra sem hægt væri að færa þetta mál í þá átt að gera einhverjum aðilum kleift að greina gögnin, ekki bara að leyfa einstaklingum að fletta öðrum einstaklingum upp, þeim mun nær komumst við að því að t.d. viðræður aðila vinnumarkaðarins byggi á nánast rauntímaupplýsingum um stöðu fólks á vinnumarkaði. Ég held að það myndi gera það samtal töluvert dýpra og öflugra.

Hvað varðar það að birta launaupplýsingar með auglýsingum um störf held ég að það væri mjög jákvæð þróun. Það væri mjög gott að birta alla vega launabil með þeim störfum sem eru auglýst vegna þess að leynd við ráðningar snýst um samningsstöðu á milli þess sem ræður og þess sem er ráðinn, að atvinnurekandinn geti haldið spilunum dálítið þétt að sér í von um að sá sem er að sækja um vinnu geri sér ekkert allt of mikla grillur um há laun. Þar með geti hann mögulega komið vel út úr því launasamtali. Það væri miklu jafnari leikvöllur að hafa bara skilgreint bil sem fólk geti talað innan og metið þá frekar menntun og hæfni einstaklingsins.