150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör. Það er vissulega nokkurt sjónarspil þegar þetta fer fram og er kannski eitt af mörgum dæmum um úrelt vinnubrögð úr fortíðinni sem við höfum ekki komið okkur í að breyta. Sjálfur er ég ekkert endilega viss um að við eigum að vita nákvæmlega hvernig fólk ætlar sér að nýta þessar upplýsingar í öllum tilvikum vegna þess að það hamlar kannski einhverri nýsköpun í notkuninni og ég átta mig á því, forseti, að hv. þingmaður er ekki að mæla með því. Það hefur sýnt sig að fólk sem vinnur við að ná sér í tölur og skrapa þeim saman héðan og þaðan er mjög nýjungagjarnt og frumlegt í hugsun um hvernig hægt sé að nýta það. Ég sé fyrir mér að þetta gæti opnað á það.

Hv. þingmaður var í andsvörum áðan við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson og þá var akkúrat rædd dæmisaga um launaviðtal sem leiðir mig í vangaveltur sem tengjast ekki beint þessari tillögu, en af því að hv. þingmaður opnaði á það þá leyfi ég mér að fara þangað. Það snýr að launaleynd, sem er kannski næsta vangavelta um hvort það sé skrefið, næsta skref, alla vega skref eða í hvaða röð sem verður, því að mér þykir eðlilegt að þetta sé uppi á borðum hjá öllum. Það að launaleynd ríki dregur úr samtakamætti verkalýðshreyfingar til að berjast saman fyrir bættum kjörum.

Nú er ég að einhverju leyti komin út í aðra sálma, hæstv. forseti, en ég gat ekki á mér setið þar sem þetta kom upp áðan.