150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

stjórn fiskveiða.

118. mál
[17:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, umræðan er góð og mætti vera mun meiri um strandveiðikerfið almennt því að það vill stundum gleymast þegar við erum að ræða sjávarútvegsmál, sem er að einhverju leyti skiljanlegt varðandi stærðarmun. En ég held að fátt sé mikilvægara mjög víða um land en einmitt strandveiðar sem hafa glætt byggðarlög lífi, svo dæmi sé tekið. Af því að hér er nefndur óveiddur afli er ágætt, án þess að ég sé með einhverja sérstaka spurningu eða andsvar, að rifja það upp að þegar við vorum að koma strandveiðikerfinu á eða öllu heldur festa það í sessi með þeim breytingum sem gerðar voru á því á þessu kjörtímabili þá var það sérstaklega gert til að mæta áhyggjum af því að ekki næðist allur afli, þ.e. að allur aflinn kláraðist of snemma öllu heldur. Þar unnum við þétt saman að því, ég og hv. þingmaður og fleiri, að auka við aflann sem var nokkurs konar varúðarráðstöfun til þess að ekki kæmi upp sú staða á miðju veiðitímabili að aflaheimildir hefðu klárast þannig að það yrði borð fyrir báru til að strandveiðiflotinn gæti nýtt sér allt veiðitímabilið. Það er ágætt að hafa það í huga. Annars árétta ég að það hefur verið minn skilningur að horft hafi verið á þessa daga ekki síst til að ná hámarksverði á fiskmörkuðum sem eru opnir á þessum dögum. Að því sögðu ítreka ég aftur að það er ekki endilega mín skoðun að þá þurfi að banna veiðar á öðrum dögum en ég vildi samt draga þetta fram í umræðunni.