151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

opinberar fjárfestingar og atvinnuhorfur.

[13:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hvað dróst? Ég held að við verðum bara að viðurkenna að ýmislegt í okkar kerfi gerir það að verkum að það gengur hægar frá því að við tökum ákvörðun um að fara í framkvæmdir, sem virðast vera tilbúnar, þangað til að þær fara af stað. Það er bara reynslan. Þegar við förum að horfa til baka og athuga hvernig við getum leyst úr því, þá var eitt af því sem ég nefndi hér að hafa t.d. aðeins meira á dagskrá í fimm ára aðgerðaáætlun samgönguáætlunar en rímar nákvæmlega við fjármálaáætlun. Það kom t.d. upp óvænt að Skipulagsstofnun ákvað að breikkun vegar á Kjalarnesi þyrfti að fara í umhverfismat. Það var ný túlkun. Það var eitthvað sem við vissum ekki af og það seinkaði þeim hluta af þeirri framkvæmd um þó nokkra mánuði. Það eru því til rökréttar ástæður fyrir einhverjum seinkunum.

En ég held að við eigum bara að læra af þessu og vera þá frekar undirbúin með meira. Ég er sammála hv. þingmanni og við í Framsóknarflokknum höfum sagt að ef við náum ekki almenna markaðnum nægjanlega vel í gang þurfum við hjá hinu opinbera að gera meira. Við höfum, ríkisstjórnin, líka sagt í yfirlýsingu við sveitarfélögin að við munum fylgjast með. Við munum vera tilbúin að hjálpa svo að sveitarfélögin geti sinnt sinni (Forseti hringir.) lögboðnu þjónustu. Það er hins vegar staðreynd að sveitarfélögin eru mjög dugleg að fara í fjárfestingar þrátt fyrir að þurfa að taka lán fyrir því eins og aðrir. (Forseti hringir.) En við verðum líka að tryggja að þau geti gert það á mannsæmandi kjörum.