151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[13:52]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir orð og áskorun málshefjanda í þessari umræðu um að Ísland eigi að setja sér sjálfstæð markmið, sjálfstæð landsmarkmið, en ekki elta önnur lönd, að mínu mati, Evrópusambandsríkin eða Evrópusambandið allt eins og við höfum verið að gera undanfarið og áform eru um að halda áfram. Ísland nýtur mjög mikillar sérstöðu þegar kemur að orkumálum og loftslagsmálum og þess vegna þreytist ég ekki á að benda á að það er mjög miður hvaða áherslur við höfum haft uppi hér undanfarið, m.a. með því að veita skattaívilnanir við innflutning á lífeldsneyti upp á þriðja milljarð króna árlega, á þriðja milljarð, skattaívilnanir sem renna til erlendra framleiðenda. Og hvað gerir þetta fyrir losunina hér á landi? Ja, dregur úr losun um kannski 0,4%. Það er ekki upp í nös á ketti, ef má nota það orðatiltæki. En hátt á þriðja milljarð króna er kostnaðurinn við þessa aðgerð. Á sama tíma er fullt af heiðarlegum verkefnum hér innan lands, m.a. við endurheimt landsvæða og annað sem hægt væri að ráðast í með miklu minni tilkostnaði sem skilar miklu meiri árangri. Það er það sem skiptir máli. Ég vil bara leggja áherslu á það í þessari umræðu og um loftslagsmálin almennt að um þau gildir ekkert annað en um aðra málaflokka: Það þarf að fara vel með fjármagn skattgreiðenda, vel með fé úr ríkissjóði. Það er ekki verið að gera það eins og sakir standa.