151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[16:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni. Um mitt ár 2017 skipaði ég starfshóp sem fékk það hlutverk að móta aðferðafræði við nýtingu svokallaðra sérleyfissamninga til að byggja upp og vernda land og náttúruperlur á vegum ríkisins með markvissari og skilvirkari uppbyggingu. Frumvarp þetta byggir á tillögum starfshópsins þar sem lagt var til að heildarlög yrðu sett um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

Áður en að heimsfaraldur skall hér á hafði verið mikil fjölgun ferðamanna til landsins síðastliðin ár. Þessi fjölgun hefur aukið áhuga og ásókn þjónustuaðila inn á landsvæði þar sem ferðamenn geta upplifað náttúru Íslands, en stór hluti þessara svæða er í eigu ríkisins. Þetta á við um hvers konar landsvæði, svo sem friðlýst svæði, þjóðlendur og önnur svæði í eigu ríkisins. Ferðaþjónustan hefur hagnýtt þessi landsvæði og náttúruperlur, oftast án sérstaks endurgjalds.

Í núverandi löggjöf er ekki að finna sérstakan ramma eða umgjörð um slíka samninga vegna nýtingar á landi í atvinnuskyni. Stjórnvöld standa þar af leiðandi frammi fyrir því verkefni að ákveða hvernig eigi að haga ráðstöfun lands í eigu ríkisins og hvernig eigi að stýra aðgengi að þeim stöðum þar sem átroðningur er sem mestur. Mikilvægt er að nýta þau tækifæri sem nú eru til staðar til að móta skýrari stefnumörkun er lýtur að aðferðafræði við úthlutun gæða af þessu tagi og gjaldtöku af þeim sem nýta landsvæði í eigu ríkisins. Aðferðafræði sem byggir á veitingu nýtingarréttar er talin geta stuðlað að frekari fjárfestingu, hagkvæmari nýtingu landsvæða og aukinni verðmætasköpun, hvort heldur sem væri í ferðaþjónustu eða öðrum atvinnugreinum.

Við núverandi efnahagsaðstæður er mikilvægt að viðhalda fjárfestingarstigi og stuðla að aukinni verðmætasköpun. Með frumvarpi þessu er því gerð tillaga um að sett verði heildarlög um nýtingu á landi og náttúruperlum í eigu ríkisins með tilteknum meginmarkmiðum sem eru:

a. að auka samkeppni um úthlutun takmarkaðra gæða,

b. að stuðla að faglegri áætlanagerð um nýtingu lands í eigu ríkisins,

c. að tryggja eðlilegt endurgjald fyrir nýtingu á landi í eigu ríkisins,

d. að auka fjárfestingar í innviðum til að tryggja öryggi, upplifun gesta, nauðsynlega uppbyggingu og aðstöðu,

e. að stuðla að útvistun á þjónustu eða uppbyggingu, einkum þegar ekki er um að ræða kjarnaverkefni á vegum hins opinbera

f. og að lokum að vernda náttúruverndarsvæði og önnur viðkvæm svæði fyrir átroðningi.

Ekki er talið mögulegt að ná þessum markmiðum fram án lagasetningar. Mikilvægt er að sömu reglur gildi um nýtingu alls lands í eigu ríkisins nema sterk rök séu fyrir hinu gagnstæða. Að sama skapi ættu að gilda sambærilegar reglur og sjónarmið um gjaldtöku vegna nýtingar á slíku landi óháð því hvaða aðili innan ríkisins fer með umsjón þess.

Virðulegur forseti. Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um markmið laganna, gildissvið þeirra og orðskýringar. Í II. og III. kafla koma fram helstu efnisreglur frumvarpsins, þar sem m.a. er gerð grein fyrir þeim þremur tegundum samninga sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. sérleyfissamningum, rekstrarleyfissamningum og nýtingarsamningum.

Sérleyfi er umfangsmesta leyfið sem felur í sér langtímanýtingarrétt til þriðja aðila til uppbyggingar og reksturs að undangenginni opinberri auglýsingu. Rekstrarleyfi er svipað og sérleyfi en umfangsminna og til styttri tíma. Nýtingarsamningur er umfangsminnstur og er fyrst og fremst ætlað að tryggja yfirsýn yfir þjónustuaðila á tilteknu svæði sé þörf á því vegna öryggismála. Þá er lagt til að nýting lands verði ákveðin að undangenginni vandaðri áætlanagerð þar sem þörf og valkostir fyrir hvert svæði eru metnir sérstaklega.

Í IV.–VI. kafla frumvarpsins eru ítarlegar reglur um auglýsingaskyldu, aðferðir við auglýsingu o.fl. Þessi ákvæði taka mið af því sem gildir á sviði opinberra innkaupa. Loks eru í VII. kafla ákvæði um skyldur ráðherra og reglugerðarheimild og hvernig fara eigi með tekjur af samningum á grundvelli laganna.

Virðulegi forseti Verði frumvarp þetta að lögum er miðað við að form nýtingarréttar fari eftir eðli og umfangi á starfsemi sem um ræðir og þeim markmiðum sem stefnt er að hverju sinni. Eitt af markmiðum frumvarpsins er að skapa aukin tækifæri og betri aðferðafræði við úthlutun gæða vegna nýtingar á tilteknum svæðum í eigu ríkisins. Þá skapast fjölmörg tækifæri til að útvista annars konar rekstri eins og bílastæðum, salernum og gestastofum sem einkaaðilar geta rekið með hagkvæmum hætti og án mikillar áhættu fyrir íslenska ríkið. Áfram er gert ráð fyrir að aðgangur verði opinn á landsvæðum í eigu hins opinbera í atvinnuskyni nema þar sem nýtingarréttur hefur verið veittur samkvæmt sérstökum samningum á grundvelli frumvarpsins. Ekki er miðað við að frumvarpið fari inn á svið almannaréttar einstaklinga til frjálsrar farar um land á grundvelli laga um náttúruvernd, enda mun það einvörðungu varða nýtingu eða aðgengi að landi í atvinnuskyni; þetta er kjarnaatriði.

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég hafi rakið hérna öll helstu atriði málsins. Þetta er kannski stærra mál en það lætur yfir sér og varðar í raun og veru tækifæri víða um land. Þetta snertir við fjölmörgum þáttum sem við stóðum skyndilega frammi fyrir þegar ferðamönnum tók að fjölga hér á síðasta áratug og þar er augljóslega hægt að vísa til dæmanna um að ferðamönnum hafi fjölgað svo mjög á einstaka svæðum að við óttuðumst um sjálfbærni þeirra til lengri tíma. Við þekkjum þetta kannski helst á svæðinu við Geysi eða Gullfoss þó að það séu ekki endilega bestu dæmin sem maður hefði í þessu efni, sem sagt í samhengi við þetta frumvarp, til að nefna. En það eru engu að síður dæmi um gríðarlega mikinn fjölda ferðamanna og það hafa vaknað áhyggjur af sjálfbærni staðanna vegna þess. Ríkið hefur sömuleiðis verið að kaupa verðmæt lönd, samanber kaupin á Felli við Jökulsárlón, og vitað er um mikinn áhuga á því að byggja þar upp þjónustuskála eða einhvers konar aðra aðstöðu. Við höfum engan sérstakan skýran lagaramma við að styðjast til þess að úthluta slíkum gæðum sem rekstur á þjónustuskála á því svæði væri. Hér er verið að reyna að vinna bót á því.

Ég ætla að leyfa mér aftur að segja að Geysir og reyndar Fell líka eru dæmi um landsvæði, fasteignir, sem ríkið hefur beinlínis keypt á undanförnum nokkrum árum og greitt mjög háar fjárhæðir fyrir og grundvöllur verðmats á báðum þessum stöðum var sá að miklir tekjumöguleikar væru á þessum svæðum og mikil ásókn í að komast þangað. Þegar ríkið þarf að eiga samtal við áhugasama atvinnurekendur, um nýtingu á þessum svæðum, þá verður að vera til staðar einhver rammi til að styðjast við. Það á best að tryggja að jafnræðis sé gætt, það sé gagnsæi um þær kröfur sem gerðar eru og þess vegna er orðið mjög tímabært og mikilvægt að við tökum þetta mál til umfjöllunar hér á þinginu.

Það er fram komið í mínu máli, en ég vil ítreka það aftur hér, að við erum ekki að fara inn á svið almannaréttar einstaklinga vegna þess að málið tekur ekki til þess. Áfram er gert ráð fyrir að aðgangur verði opinn á landsvæðum í eigu hins opinbera, jafnvel í atvinnuskyni, nema þar sem nýtingarréttur hefur verið veittur samkvæmt sérstökum samningum. Það er kannski eitt af þeim viðkvæmu atriðum í framkvæmd, hvar á að þrengja að möguleikum atvinnurekenda til að koma í atvinnuskyni inn á svæði. Jú, svarið við því hlýtur að liggja í meginmarkmiðunum með þessari lagasetningu. Ef við getum ekki leyft áfram átroðning fjölmargra fyrirtækja með sína viðskiptamenn inn á tiltekin svæði, vegna þess að við óttumst um sjálfbærni svæðanna, þá verðum við að fara leið nýtingarréttar og gera einhvers konar samninga um nýtingu á svæðinu.

Þetta er kannski veruleiki sem við töldum ekki að við stæðum frammi fyrir svona snemma á öldinni. En þetta er bara reynslan af síðustu bylgju ferðamanna til Íslands. Ég gæti auðvitað verið að nefna hér fjölmörg önnur svæði. Maður hefur ákveðnar áhyggjur, t.d. af Laugaveginum, milli Landmannalauga og Þórsmerkur, og augljóslega hefur mikið gengið á víðar. En þetta eru ekki alls staðar lönd í eigu ríkisins. Það hefur mikið gengið á í og við Reynisdranga, svo að dæmi sé tekið, en þar eru heimamenn með þjónustuskála og hafa í samstarfi við stjórnvöld verið að koma upp skiltum til að forða fólki frá þeirri hættu sem fjaran getur valdið. Svo vitum við líka sem er að orðið hafa til nýir seglar á undanförnum árum sem draga að sér fólk og munu kannski verða enn vinsælli en við höfum séð til þessa. Allt eru þetta rök fyrir því að við komum saman traustum ramma utan um samningsgerð við þá sem falast eftir nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar við höfum lokið umræðu um frumvarpið verði því vísað til hv. fjárlaganefndar þingsins og til 2. umr.