152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:53]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Ef það er Pírötum að kenna að afglæpavæðing neysluskammta er ekki orðin að veruleika þá er ég karlinn í tunglinu. Að allt öðru: Það vakti furðu margra þegar Alþingi skrapp í jólafrí í miðri ómikrón-bylgju og á tímum harðra sóttvarnatakmarkana án þess að framlengja stuðningsúrræði fyrir fyrirtækin sem urðu harðast úti. Frumvarp um almenna viðspyrnustyrki kom ekki inn í þingið fyrr en 1. febrúar, það var ekki afgreitt fyrr en eftir kjördæmaviku og þannig var dagskránni og forgangsröðun verkefna háttað þrátt fyrir að meiri hlutanum væri fullljóst að það ætti eftir að taka margar vikur að koma úrræðinu til framkvæmda. Nú er 28. mars. Rekstraraðilar veitingastaða bíða enn eftir styrkjum sem við samþykktum lög um þann 8. febrúar og ekki hefur einu sinni verið opnað fyrir umsóknir um almennu viðspyrnustyrkina. Það er ekki einu sinni hægt að sækja um þá enn. Stjórnvöld verða að hafa hraðar hendur en svo þurfum við hér á þinginu og forseti Alþingis að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir sams konar seinagang, sams konar tafir á nauðsynlegum aðgerðum vegna hækkandi verðlags og hækkandi vaxta sem skuldsett og tekjulág heimili verða fyrir.