152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég sit hérna aftast í salnum þannig að þegar hv. þm. Ásmundur Friðriksson fór eitthvað að baula undir fyrstu ræðum þeirra sem voru að tjá sig um fundarstjórn forseta heyrði ég ekki hvað hann sagði. Mig langaði þess vegna að beina því til forseta að leiðbeina þingmanninum um það hvernig væri best að tjá sig í þessum sal, sem er einmitt úr þessari pontu, eitthvað sem stjórnarliðar gera allt of sjaldan þessa dagana. Svo horfði ég á eftir honum ganga út úr salnum þannig að það er kannski um seinan. Hann er búinn að tjá sig nóg með frammíköllum. Ég reikna með því að hv. þingmaður hafi þar verið að fetta fingur út í að bent sé á slugs ríkisstjórnarinnar í afglæpavæðingarfrumvarpinu og kannski sérstaklega þegar rifjað er upp hversu vel forysta velferðarnefndar á síðasta kjörtímabili hélt á málinu. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson fór fremst í flokki þeirra þingmanna sem grófu markvisst undan Halldóru Mogensen sem formanni þeirrar nefndar þegar hún skilaði frámunalega góðu starfi í hverju málinu á fætur öðru. Mig langar bara (Forseti hringir.) rétt þessar síðustu sekúndur sem ég hef ekki lengur að minna forseta á (Forseti hringir.) að lög um þungunarrof hefðu ekki farið í gegnum Alþingi Íslendinga á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) nema einmitt vegna forystu Halldóru Mogensen í velferðarnefnd. (Forseti hringir.) Ef hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur eitthvað út á það að setja má hann mæta hér í pontu og segja það frekar en að muldra það úr sætinu sínu.