152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta mál á dagskrá og forsætisráðherra fyrir að gefa yfirlit yfir það hvað verið er að gera. Þegar kemur að fæðuöryggi er mikilvægt að horfa á það út frá hinu flókna kerfi sem það myndar. Þetta er ekki bara það að fæða erlendis frá komi ekki hingað, heldur er þetta miklu stærra mál sem hefur mörg mismunandi kerfi sem við þurfum að fylgjast með og að sama skapi eru mismunandi sviðsmyndir sem við þurfum að hugsa um. Sú sviðsmynd sem við lifum við núna t.d. vegna stríðsins í Úkraínu er sú að kostnaður vegna áburðar rýkur upp, kostnaður vegna bensíns og olíu rýkur upp og verð á korni og fæðu rýkur upp líka og þar að auki á erlendri matvöru. Flest af þessu er skattlagt eða hefur tolla sem þýðir að afkoma ríkisins af þessum vörum hækkar miðað við áætlanir. Ég spyr því: Hvað mælir gegn því að lækka tímabundið þessa tolla, vörugjöld og skatta til að jafna út áhrifin? Ríkið tapar jú ekkert á því að gera slíkt.

En það er ekki nóg að horfa bara á þá sviðsmynd sem er núna. Við þurfum líka að hugsa um hvað gerist ef ástandið verður alvarlegra, ef stríð brýst út í Evrópu, nú eða ef við eigum ekki gjaldeyri eins og gerðist árið 2008. En ég ætla að koma nánar að því og því hvernig við byggjum okkur upp fyrir það í minni seinni ræðu.