152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða og ástæða til að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu hér, máli sem við í Miðflokknum höfum reynt að vekja athygli á undanfarin ár og birtist skýrt í heildarstefnu okkar í landbúnaðarmálum, mikilvægi fæðuöryggis og lausnirnar á því hvernig megi tryggja það. Þó að umræða um þetta mikilvæga mál komi upp endrum og sinnum, þó einkum þegar um er að ræða einhvers konar neyðarástand á heimsvísu á mörkuðum eða eins og nú er vegna þessa hrikalega stríðs í Úkraínu, hefur skort á eftirfylgni, það hefur skort á aðgerðir. Því velti ég fyrir mér nú hvort þessi umræða muni leiða til þess að ríkisstjórnin ráðist í einhverjar raunverulegar aðgerðir til að treysta fæðuöryggi þjóðarinnar, því að það hefur ekki verið. Það hefur, eins og ég hef oft lýst, verið sótt að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum samtímis. Það sem þarf, ef okkur er alvara með að tryggja fæðuöryggi á Íslandi, er aukinn stuðningur við íslenskan landbúnað og að rýmka fyrir, draga úr reglubyrðinni sem er mjög íþyngjandi fyrir landbúnað okkar í samkeppni við landbúnað annars staðar. Án raunverulegra aðgerða og raunverulegs stuðnings munum við ekki tryggja raunverulegt fæðuöryggi. Ég bíð spenntur eftir því, frú forseti, að sjá hvort þetta verður bara enn ein umræðan, enn ein almenna umræðan, eða hvort áhrifin birtast í raunverulegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það er ekki vanþörf á. Ástandið nú er enn ein áminningin um það sem lá fyrir og hefur legið fyrir lengi. En nú kallar þetta svo sannarlega á viðbrögð og ef þau koma ekki núna, hvenær koma þau þá?