152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:58]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Hér á landi hefur umræðan um fæðuöryggi að stórum hluta snúist um fæðusjálfstæði, hvernig við getum orðið sjálfum okkur næg, óháð innflutningi erlendra matvæla. Inn í þá umræðu vil ég nefna tvö mikilvæg atriði. Annars vegar að slíkt sjálfstæði snýst um miklu meira en bara næga framleiðslu innan lands. Hún snýst um það að við getum knúið öll okkar framleiðslutæki með innlendum orkugjöfum, að við getum framleitt tækin sem þarf hér á landi og að önnur aðföng, eins og áburður, fóður, rúlluplast og byggingarefni, séu framleidd hér á landi sömuleiðis.

Hitt atriðið er að núverandi stuðningskerfi landbúnaðarins, með tollum og höftum, gerir innlenda framleiðslu ekki sjálfstæðari að þessu leyti. Það er ekki raunhæft markmið að gera íslenska framleiðslu óháða innflutningi. Það er heldur ekki skynsamlegt þegar fórnarkostnaðurinn er til þess fallinn að draga úr viðskiptum okkar við önnur lönd. Milliríkjaviðskipti byggja á því að hver þjóð framleiði á sínu svæði það sem hagkvæmast er og flytji inn það sem hagkvæmast er að framleiða annars staðar. Sú nálgun skilar sér í aukinni hagsæld þjóða og lægra matarverði fyrir fjölskyldur þessa lands. Þótt stríð sé hafið í Evrópu hafa flutningar til Íslands ekki stöðvast. Þeir stöðvuðust heldur ekki í heimsfaraldrinum eða í seinni heimsstyrjöldinni. Reynslan sýnir okkur að það þarf mikið til að milliríkjaviðskipti geti ekki tryggt fæðuöryggi Íslendinga. Þess vegna eigum við að afnema viðskiptahindranir og stuðla að náinni samvinnu þjóða á alþjóðavísu samhliða því að við styðjum við innlenda framleiðslu. Þannig getum við tryggt nægjanlegt framboð af fæðu, ekki með því að einangra okkur enn frekar.