152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málarekstur ráðherra fyrir dómstólum.

423. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ríkisvaldið þarf stundum að fara í málaferli, standa í dómsmálum til að verja heildarhagsmuni, verja hagsmuni ríkissjóðs, verja hagsmuni þjóðarinnar. En það virðist ekki alltaf vera skýrt hvenær eða hvort yfir höfuð eigi að fara með mál fyrir dómstóla, til að mynda þegar ráðherrar hafa gerst brotlegir við lög og ekki síst ef ráðherrar hafa gerst brotlegir við lög og það eru tímamót að farið sé með viðkomandi mál eða viðkomandi málaflokk fyrir dómstóla.

Ég er hér að vísa til málaferla núverandi menningar- og ferðamálaráðherra, áður hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, gagnvart konu sem fór með mál sitt fyrir kærunefnd jafnréttismála eftir að hafa sótt um stöðu ráðuneytisstjóra. Kærunefndin komst að mjög skýrri niðurstöðu sem var sú að ráðherra hafði brotið jafnréttislög við skipun nýs ráðuneytisstjóra. Ég segi tímamót af því að það er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrar hafa gerst brotlegir við jafnréttislög. Til að mynda gerðist Jóhanna Sigurðardóttir brotleg við jafnréttislög, sem og Bjarni Benediktsson, mig minnir einnig hæstv. matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir. Þetta eru örugglega allt ráðherrar sem hafa verið að gera sitt besta en niðurstaðan varð engu að síður þessi hjá kærunefnd jafnréttismála. Allir þessir ráðherrar ákváðu hins vegar að semja við viðkomandi einstaklinga af því að það voru greinilega aðrir hagsmunir sem voru meiri, þ.e. jafnréttismálin. Við höfum sem sagt þessi dæmi þannig að það eru tímamót þegar með þetta mál var farið fyrir dómstóla.

Við vitum auðvitað að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald en engu að síður leikur mér forvitni á að vita: Er eitthvert pólitískt mat sem liggur fyrir þegar svona tímamótaákvörðun er tekin sem felur í sér mjög ákveðin pólitísk skilaboð, líka þegar kemur að jafnréttismálum? Þegar ráðherra fór með mál fyrir dómstóla, var málið til að mynda rætt í ríkisstjórn? Og síðan líka: Hvaða mat átti sér stað þegar búið var að fara með málið fyrir héraðsdóm? Þar undirstrikar héraðsdómur mjög skýrlega að ráðherra hafi gerst brotlegur við jafnréttislög en það tekur síðan einungis fjóra tíma að ákveða að fara með málið fyrir Landsrétt. Þess vegna langar mig að vita, af því að það eru svo miklir hagsmunir í húfi, bæði í þessu máli en líka þegar við skoðum heildarmyndina, og mín spurning er sú: Hvaða viðmið og reglur gilda þegar ráðherra í ríkisstjórn ákveður að fara með mál fyrir dómstóla og eftir atvikum þá áfrýja málum? Hvaða mat fer fram á almannahagsmunum, t.d. fjárhagslegum hagsmunum ríkisins? Við vitum að í þessu tilfelli hefur þetta kostað einhverja tugi milljóna. Þegar slík ákvörðun er tekin, voru jafnréttissjónarmið lögð til grundvallar þessari ákvörðun? Þannig að við vitum aðeins betur, ef það verður þannig að við sjáum fram á að ráðherra standi frammi fyrir svona mati, hvaða viðmið og reglur hann hefur til leiðsagnar þegar ákveðið er að fara með mál gagnvart einstaklingi fyrir dómstóla.