152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málarekstur ráðherra fyrir dómstólum.

423. mál
[17:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að leggja þessa fyrirspurn fram, um hvaða viðmið eða reglur gildi þegar ráðherra í ríkisstjórn ákveður að fara með mál fyrir dómstóla eða eftir atvikum að áfrýja málinu. Ég hef aflað mér upplýsinga og samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögmanns hefur íslenska ríkið einungis höfðað sjö mál á síðastliðnum áratug, þar af fjögur fyrir Félagsdómi, en þá eru einnig fáein dæmi um málshöfðun íslenska ríkisins í þjóðlendumálum og málum sem stofnanir hafa höfðað. Málssóknir ríkisins eru því fátíðar.

Þá vil ég líka nefna, eins og hv. þingmaður kom raunar að í sínu máli, að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald. Ráðherrar fara með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, hver á sínu málefnasviði samkvæmt forsetaúrskurði. Því ræðst það af skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta og ráðherra hvaða ráðherra og ráðuneyti fara með málsforræði í einstökum málum og taka þá ákvörðun um málshöfðun eða áfrýjun. Samkvæmt lögum um ríkislögmann annast hann sókn þeirra einkamála sem ríkið höfðar á hendur öðrum nema hann hafi falið lögmanni utan embættisins meðferð málsins með samþykki hlutaðeigandi ráðherra eða ríkisstofnunar. Þá starfar ríkislögmaður í umboði þess ráðherra sem ber ábyrgð á því stjórnarmálefni sem undir er hverju sinni og sækir fyrirmæli um rekstur máls til þess ráðherra sem hverju sinni er í fyrirsvari fyrir ríkið. Það er bæði skylda og réttur ráðherra að hafa fyrirsvar fyrir þeim málum sem varða ábyrgðarsvið hans.

Hv. þingmaður spyr hér um reglur eða viðmið. Því er til að svara að löggjafinn hefur ekki sett sérstakar reglur um málshöfðun ríkisins og ákvarðanatöku ráðherra í þeim efnum. Um það fer samkvæmt þeim almennu reglum sem gilda um störf ráðherra sem æðsta handhafa framkvæmdarvalds á sínu sviði. Því er ákvörðun ráðherra um að höfða mál eða áfrýja máli eðli máls samkvæmt nokkuð matskennd ákvörðun og hefur hann nokkurt svigrúm til mats þar um. Að sjálfsögðu er hann þó bundinn af skráðum og óskráðum grunnreglum opinbers réttar, þar á meðal meginreglum stjórnsýsluréttar, og vil ég þá vitna til réttmætisreglunnar sem felur í sér að allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda þurfa að vera málefnalegar. Síðan ræðst það af lagagrundvelli hverju sinni og eðli þeirrar ákvörðunar sem um ræðir og málsatvikum hvaða sjónarmið teljast málefnaleg. Ég get nefnt í því samhengi að málefnaleg sjónarmið geta t.d. verið þau ef úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi, fordæmisgildi, varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni, til að mynda fjárhagslega, eða ef úrlausn stjórnvalds eða dómur er bersýnilega talinn rangur. Á hinn bóginn eru sjónarmið byggð á geðþótta, óvild eða persónulegum ástæðum almennt talin ómálefnaleg. Ég nefni jafnframt jafnræðisregluna sem snýst um að sambærileg mál fái sambærilega úrlausn, meðalhófsregluna um að valdi skuli aðeins beitt að með því sé lögmætu markmiði náð og að ekki séu aðrar vægari aðgerðir í boði til að ná því markmiði, ekki gengið harðar fram en nauðsyn krefur. Allar þessar reglur binda að sjálfsögðu hendur ráðherra og þurfa því að vera ofarlega í huga ráðherra þegar þeir ákveða að höfða mál, áfrýja dómi eða við aðra ákvarðanatöku.

Síðan eru auðvitað gerðar ákveðnar faglegar kröfur til þess hvernig ráðherra rækir starf sitt, þegar við höfum í huga grundvöll og megineinkenni íslenskrar stjórnskipunar. Þegar ráðherra ráðstafar opinberum hagsmunum með þessum hætti er líka gerð sú krafa að ráðherra afli sér hlutlægrar ráðgjafar sem reist er á fullnægjandi og réttum upplýsingum og gildir þá einu hvort um er að ræða ráðgjöf ráðuneytis eða álitsumleitan ríkislögmanns. Þá getur ráðherra óskað lögfræðilegs álits ríkislögmanns samkvæmt lögum um ríkislögmann, auk álits lögmanna utan embættisins þegar svo ber undir. Er það iðulega gert áður en ákvörðun um málshöfðun er tekin af hálfu ráðherra, enda er það hluti af vandaðri málsmeðferð við töku þeirrar ákvörðunar sem um ræðir.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega fjárhagslega hagsmuni ríkisins og tel ég það vera eitt af þeim atriðum sem almennt er unnt að líta til við mat á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem liggja til grundvallar ákvörðun um málshöfðun. Sama má segja um jafnréttissjónarmið, enda eitt af markmiðum jafnréttislöggjafarinnar að stjórnvöld gæti jafnréttissjónarmiða í ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. En hvert mál þarf að skoða, vega og meta þá hagsmuni og málsatvik sem undir eru hverju sinni og leggja á það mat í hverju tilviki að hvaða marki einstök sjónarmið eiga við.

Árið 2019 gaf forsætisráðuneytið út leiðbeiningar fyrir ráðuneyti og stofnanir um verklag í samskiptum við embætti ríkislögmanns og eru þær fyrst og fremst lýsandi fyrir framkvæmd sem hefur þróast um langt árabil í þeim málum sem ríkið tekur til varna, en þau mál eru í miklum meiri hluta eins og áður segir. Þar er að einhverju leyti að finna þau sjónarmið sem ég hef þegar rakið og eins er þar gert ráð fyrir því að ráðherra og ráðuneyti hafi samráð við ríkislögmann þegar tekin er ákvörðun um hvort leita eigi endurskoðunar á dómi með málskoti til æðra dómsvalds. Í mars 2021 var ráðist í stefnumótunarvinnu með embætti ríkislögmanns. Ein af meginniðurstöðum þeirrar vinnu var sú að ríkislögmaður skyldi móta viðmið og meginreglur um fyrirsvar embættisins í málum sem rekin eru fyrir dómstólum fyrir hönd ríkisins. (Forseti hringir.) Ég hef ekki meiri tíma hér til að fara yfir hinar almennu reglur og viðmið sem gilda um þessi mál en tel að þetta sé mikilvægt mál til að ræða hér í þingsal.