152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:24]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Aftur vil ég þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Þegar ég las hana fyrst hugsaði ég strax: Bíddu, ha? Er ekki enn búið að endurnýja Grímseyjarferjuna? Það er kominn ansi langur tími síðan farið var að ræða þetta. Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að koma til Grímseyjar og tek undir með hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni að þetta er einn magnaðasti staður sem ég hef komið á í lífinu. Þetta er pínulítil eyja, ég man ekki hvað það tók okkur margar mínútur að labba hana alla, hún er úti í miðju úthafi. Þetta er rosalega mögnuð upplifun. Það er ótrúlegt að koma þangað. Og í ljósi þess sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði vil ég nefna að ég kom þangað í lok desember og það var sannarlega kalt en það var gríðarlega áhugavert. En það var ekki síður áhugavert að tala við fólkið sem býr þarna af því að þarna býr fólk sem á börn sem sækja ekki skóla í eynni heldur þurfa að fara til meginlandsins. Eyjan okkar er orðin að meginlandi í þessum skilningi. Ég vildi nefna að það að þessi ferja (Forseti hringir.) sé nútímaleg snýst sannarlega um umhverfismál. Það snýst líka um öryggismál. Fyrir fólkið sem er að senda börnin sín í einhverra klukkutíma siglingu í hverri viku og þarf þegar að búa við það að vera aðskilið frá börnunum sínum á meðan þau eru í skóla annars staðar þá skiptir þetta gríðarlega miklu máli. (Forseti hringir.) Ég vildi bara koma þessum punkti að til viðbótar við allt annað sem hefur verið sagt hér.