152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir svarið. Ég er líka þakklát öllum sem tóku þátt í umræðunni. Það er augljóst að þessi dagskrárliður er mjög mikilvægur fyrir hagsmunagæslubaráttu landsbyggðarinnar. Mig langar að fara aðeins aftur yfir í punktinn um orkuskiptin og ferjuleiðirnar en í meirihlutaáliti um samgönguáætlun segir, með leyfi forseta:

„Í samgönguáætlun 2019–2033 er lögð áhersla á að styðja við umhverfisvænar samgöngur með því að tengja skip rafmagni í höfnum og að allar nýjar ferjur verði knúnar umhverfisvænum orkugjöfum. Það er í samræmi við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018–2030. Meiri hlutinn leggur áherslu á að tryggja þarf yfirsýn yfir það hverjir koma að slíku verkefni og greina áskoranir og tækifæri sem felast í slíkum verkefnum um leið og bent er á mögulegar og þekktar lausnir til orkuskipta í íslenskum höfnum, með áherslu á raftengingu skipa meðan þau liggja við bryggju.“

Þetta er eitt af lykilatriðunum í orkuskiptunum, þ.e. að þeir orkugjafar sem notaðir eru í almenningssamgöngum séu í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar.

Það er mjög ánægjulegt að heyra áhuga hæstv. innviðaráðherra á því að endurnýja ferjur með orkuskiptin í huga. Ég kalla líka eftir því að mótuð verði stefna um ferjuleiðir innan samgönguáætlunar sem er ekki til staðar núna svo hægt sé að tryggja bæði öruggar samgöngur og fyrirsjáanleika fyrir íbúa þeirra byggða sem treysta á ferjur til að nálgast aðra þéttbýliskjarna og nauðsynlega þjónustu.